Önnur starfsemi verði samhliða göngudeild

Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir á covid-göngudeild.
Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir á covid-göngudeild.

Hugmyndafræðin að baki covid-göngudeild Landspítalans hefur heppnast og er ástæða til að yfirfæra hana á önnur verkefni spítalans. Þetta segir Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir covid-göngudeildar. Til skoðunar er að byggja upp aðra þjónustu í húsnæðinu í Birkborg, þar sem covid-deildin er til húsa. 

„Það snýst um að efla aðkallandi þjónustu; vandamál sem verður að leysa en mega bíða yfir nótt,“ útskýrir Ragnar og bætir við að þannig megi betur stýra flæði inn og út af spítalanum. „Það má segja að þannig getum við liðkað fyrir útskriftum. Í stað þess að liggja inni í 2-3 daga þegar það á eftir að taka ákvarðanir getur fólk sofið heima gegn því að koma daginn eftir.“

Frá því landamæri Íslands voru opnuð að hluta 15. júní hafa læknar á covid-göngudeild aðeins þurft að skoða þrjá einstaklinga vegna gruns um að þeir hafi virk smit. Það er aðeins gert mælist fólk smitað við komuna til landsins og hjúkrunarfræðingur meti ástand þeirra þannig að smitið gæti verið virkt.

mbl.is