„Óþolandi og hættulegt ástand“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir það óþolandi og hættulegt ástand að sjúklingar sem bíða innlagnar á hjúkrunarheimili safnist fyrir á bráðamóttökunni. 

„Í sumarbyrjun lauk hreint ótrúlegu viðbragði Landspítala vegna COVID-19 faraldursins. Þá fóru að sjást blikur á lofti um vaxandi álag á bráðamóttökunni í Fossvogi. Þar var eins og þið munið neyðarástand upp úr áramótum, neyðarástand vegna sjúklinga sem biðu veikir sólarhringum saman á göngum bráðamóttökunnar eftir innlögn á spítalann.

Það ástand leiddi til stofnunar átakshóps okkar heilbrigðisráðherra, að hvatningu landlæknis. Vandinn hvarf á einni nóttu í byrjun mars, ekki nema að litlu leyti vegna farsóttarinnar en að miklu leyti vegna opnunar stórs hjúkrunarheimilis Hrafnistu við Sléttuveg í lok febrúar.

Af niðurstöðum átakshópsins leiddi fjölmörg verkefni sem eru á höndum Landspítala og heilbrigðisráðuneytisins en einnig heimahjúkrunar. Þau munu skila árangri til lengri tíma en því miður fóru nú í júní aftur að safnast fyrir sjúklingar á bráðamóttökunni sem biðu innlagnar. Hélst það í hendur við mjög hraða fjölgun sjúklinga með færni- og heilsumat (sjúklingar sem bíða hjúkrunarheimilis) á spítalanum.

Þetta er óþolandi ástand og hættulegt fyrir sjúklinga sem til okkar leita. Þótt orsakirnar séu ekki nema að litlu leyti innanhúss þá er samt ekki öðrum til að dreifa að bregðast strax við,“ segir í föstudagspistli forstjórans.

Sjö rúma biðdeild var opnuð á þriðju hæð Grensáss fyrr í mánuðinum, tímabundið til að sjúklingar gætu lagst inn á spítalann. „Við getum öll staðið í þakkarskuld við það frábæra starfsfólk Grensáss, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustunnar og meðferðarsviðs alls sem einhenti sér í málin. Það er hins vegar ljóst að mjög fljótt þarf að finna fleiri rými og aðrar lausnir og erum við að vinna hugmyndir í samráði við aðrar heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisráðuneytið. Þar má engan tíma missa,“ segir Páll.

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans. Ljósmynd/Lögreglan

Hann segir Landspítalann að sjálfsögðu axla þá ábyrgð að taka við skimun á landamærum en því verkefni hefur Íslensk erfðagreining sinnt fram að þessu. „Við öxlum að sjálfsögðu þá ábyrgð. Það er enda skýrt að spítalanum ber að sinna skimun fyrir sjúkdómum sem hafa þýðingu fyrir almannaheill. Sóttvarnalæknir hefur metið að það eigi við um þessa skimun.

Allir eru á dekki við að tryggja að spítalinn geti tekið við verkefninu 14. júlí næstkomandi. Þar eiga sýkla- og veirufræðideild spítalans, heilbrigðis- og upplýsingatæknideild og reyndar allt þjónustusvið mikinn heiður skilinn. Starfsfólk hefur allt brugðist við af ótrúlegri snerpu og atorku með það að markmiði að tryggja að skimun gegn SARS-CoV-2 veirunni haldi áfram eftir 13. júlí. Þegar við tökum nú við þessu flókna og krefjandi verkefni þá njótum við þekkingar Íslenskrar erfðagreiningar en starfsmenn þeirrar vísindastofnunar hafa sannarlega reynst bakhjarl þegar á hefur reynt í glímu við farsóttina undanfarna mánuði,“segir Páll ennfremur en pistilinn er hægt að lesa í heild hér.

mbl.is