„Þetta er algjör þoka“

Göngin vinsælu í Langjökli.
Göngin vinsælu í Langjökli.

„Það er alveg gríðarleg óvissa í okkar rekstri. Við vitum í raun óskaplega lítið um hvernig þetta kemur til með að þróast,“ segir Sig­urður Skarp­héðins­son, fram­kvæmda­stjóri Into the Glacier, í sam­tali við mbl.is. Göng­in voru opnuð fyr­ir fimm árum og eru stærstu mann­gerðu ís­göng heims. 

Líkt og önnur ferðaþjónustufyrirtæki hefur Into the Glacier orðið fyrir gríðarlegu höggi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Fyrirtækið heyrir undir Arctic Adventure, sem sagði öllum 152 starfsmönnum sínum upp undir lok aprílmánaðar. Starfsmennirnir eru þó enn á uppsagnarfresti og hefur hluti þeirra sinnt viðhaldi í ísgöngunum.

Ráða inn verktaka í ágúst

Þegar mest lét voru um 35 starfsmenn hjá Into the Glacier, en þeir eru nú um tíu talsins. Spurður hvort til greina komi að ráða þá að nýju þegar fram líða stundir segir Sigurður að ómögulegt sé að segja til um það. „Við erum með nokkra starfsmenn til að sinna göngunum og við erum að búa okkur undir erfiðan vetur. Það þarf auðvitað að sinna viðhaldi, en hversu mikil starfsemin verður mun skýrast seinna,“ segir Sigurður og bætir við að erfitt sé að reka fyrirtæki í þessu ástandi. Þá verði starfseminni sinnt af verktökum í ágústmánuði. 

„Það sama á við okkur eins og Arctic Adventures, við erum að búa okkur undir það versta. Það er rosalega erfitt að fara að gefa sér eitthvað því þetta er algjör þoka. Við tökum bara einn mánuð í einu eins og aðrir ferðamannastaðir,“ segir Sigurður. 

„Stigvaxandi frá mánaðarmótum“

Við upphaf júlímánaðar hófst skimun í Leifsstöð sem gerði ferðamönnum kleift að koma hingað til lands án þess að þurfa að sæta tveggja vikna sóttkví. Hefur ráðstöfunin létt undir í rekstrinum. „Það er gott að hafa einhverjar tekjur þó þær séu brot af því sem þær voru. Við höfum alveg fundið fyrir auknu flæði og það hefur verið stigvaxandi frá mánaðarmótum,“ segir Sigurður. 

Aðspurður segir hann að innlend markaðssetning hafi sömuleiðis gefist vel. Boðið hafi verið upp á sérstök afsláttarkjör til Íslendinga sem ánægja var með meðal viðskiptavina. „Við settum upp sérstakan vef þar sem við fórum í markaðssetningu beint að Íslendingum. Það hefur gefist mjög vel,“ segir Sigurður. 

mbl.is