Berst fyrir lífi sínu í Danmörku

Bergsteinn var 29 cm langur óg vóg 531 gramm við …
Bergsteinn var 29 cm langur óg vóg 531 gramm við fæðingu. Ljósmynd/Aðsend

Í Álaborg í Danmörku berst fyrirburinn Bergsteinn Úlfur fyrir lífi sínu. Bergsteinn fæddist 5. júlí en mamma hans, Linda, var þá aðeins gengin 23 vikur á leið. Hún var í Danmörku að heimsækja móður sína sem býr þar en hafði ekki séð fyrir sér að stoppa lengi, og alls ekki fæða þar barn. Nú er hins vegar útlit fyrir að hún ílengist í Danmörku næstu mánuði.

Parið Linda María Ásudóttir og Ragnar Jónasson eru bæði búsett á Íslandi. Ragnar er 23 ára bóndi og á jörð með systkinum sínum í Kolbeinsstaðarhreppi en Linda er 18 ára gömul og í námi.

Tveimur vikum eftir komuna til Danmerkur fór henni að blæða og þrátt fyrir tilraunir lækna til að stöðva fæðinguna, fæddist strákurinn tveimur dögum síðar. „Ég var nú svolítið hissa en það var lítið annað í stöðunni en að koma til Danmerkur og hitta manninn,“ segir Ragnar, nýbakaður faðirinn, í samtali við mbl.is. Hann keypti sér umsvifalaust miða til Danmerkur og var kominn á spítalann daginn eftir.

Bergsteinn Úlfar verður í hitakassa næstu mánuði.
Bergsteinn Úlfar verður í hitakassa næstu mánuði. Ljósmynd/Aðsend

Stuðningurinn ómetanlegur

Ástand drengsins er enn alvarlegt og tvísýnt hvort hann lifir. „Það er ekki öruggt að segja til um það, en hann er allur að stækka og koma til og orðinn nokkuð hress miðað við hversu þroskaður hann er,“ segir Ragnar. Þegar ljóst var að ekki tækist að stöðva fæðinguna var drengnum gefin sterasprauta í móðurkviði og segir Ragnar að það hafi hjálpað mikið til við þroskann. Drengurinn dvelur nú í hitakassa á fyrirburadeild sjúkrahússins í Álaborg og hafa foreldrarnir herbergi á spítalanum til að búa sem næst honum. 

Drengurinn er ekki farinn að opna augun enn og fær alla sína næringu gegnum slöngu. „Þegar hann fæddist reyndi hann aðeins að gráta en ekki mikið og hann getur það eiginlega ekki,“ segir Ragnar. 

„Næstu mánuðir fara bara í að vera hjá honum og spjalla við hann þegar á þarf að halda,“ segir Ragnar. Drengurinn muni í fyrsta lagi útskrifast seinni partinn í október, gangi allt að óskum, nokkrum vikum áður en hann hefði átt að fæðast.

Ragnar segir að stuðningur fjölskyldu og vina hafi reynst ómetanlegur á þessum erfiðu tímum. Vinir foreldranna nýbökuðu í Bretlandi hafa sett á stofn styrktarsöfnun á heimsíðunni Go Fund Me, þar sem safnað er fyrir útgjöldum fjölskyldunnar. „Við vitum ekki enn þá hvort það verður einhver lækniskostnaður enn, en svo þarf auðvitað að koma honum heim einhvern veginn þegar að því kemur,“ segir Ragnar.

mbl.is