Enn ein uppstokkun á brunamálasviði „óboðleg“

Magnús Smári Smárason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Magnús Smári Smárason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefur áhyggjur af fyrirhuguðum flutningi brunamálasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til Sauðárkróks. 

Þetta segir Magnús Smári Smárason, formaður félagsins. Greint var frá málinu í kvöldfréttum RÚV í gær og í kjölfarið hafa félagsmálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins tjáð sig um málið og sagt aðgerðina lið í byggðastefnu stjórnvalda.

Magnús Smári, sem starfar sem slökkviliðsmaður á Akureyri, segir að umræðan um málið sé á villigötum. „Þessi umræða er farin að snúast um landsbyggðarpólitík, sem við sem stéttarfélag ætlum ekki að blanda okkur inn í,“ segir Magnús. Hins vegar sé félagið málsmetandi þegar kemur að faglegri umræðu um málefni slökkvistarfs.

Um sé að ræða enn eina uppstokkunina á stjórnsýslu brunamála á skömmum tíma, en skammt er liðið frá því Brunamálastofnun sameinaðist Mannvirkjastofnun, og rann síðar inn í nýja Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er til húsa í Borgartúni.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er til húsa í Borgartúni. Ljósmynd/Aðsend

Að sögn Magnúsar hefur enginn þeirra starfsmanna, sem starfa á brunamálasviðinu í dag, hug á að flytja norður og því ljóst að ráða þarf í þeirra stað. „Það eru mjög fáir sem fara í skóla og læra að verða sérfræðingar í brunamálum. Mannauðurinn er því takmarkaður og einstaklingar sem hafa skilning á starfsumhverfi slökkviliða ekki á hverju strái,“ segir Magnús. Hann segir landfræðilega staðsetningu brunamálasviðsins ekki skipta neinu máli. Hins vegar sé óboðlegt að „taka það svið upp og tæta það“. „Það er bara ófagleg framkvæmd.“

Mörg stór verkefni eru á könnu brunamálaviðs, sem ætlað er að hafa eftirlit með starfsemi og rekstri slökkviliða landsins. Segir Magnús að fyrirferðarmikil mál líkt og aðbúnaður í íbúðahúsnæði, sem hefur verið til umræðu eftir bruna á Bræðraborgarstíg í síðasta mánuði, standi sviðinu fyrir þrifum og með flutningnum sé það upplifun slökkviliðsmanna að verið sé að þurrka þá vinnu út.

mbl.is