Fjórar líkamsárásir á sex tímum

mbl.is/Kristinn

Fjórar líkamsárásir komu til kasta lögreglunnar í Reykjavík í gærkvöldi og í nótt. Meðal annars réðust þrjú ungmenni á ungar stúlkur og í tveimur árásum var eggvopni beitt. 

Í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um líkamsárás við Ingólfstorg en þar hafði verið ráðist á mann með eggvopni og honum veittir áverkar á hálsi. Árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögregla kom þangað og var sá sem varð fyrir árásinni fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar. Að því er fram kemur í dagbók lögreglu var skurðurinn grunnur og ekki talin þörf á aðgerð.

Skömmu eftir miðnætti var tilkynnt um líkamsárás við Barónsstíg. Þar höfðu tveir piltar og stúlka ráðist að ungum stúlkum. Ungmennin sem réðust á stúlkurnar voru farin af vettvangi er lögregla kom þangað og var forráðamönnum og Barnavernd tilkynnt um atvikið. Málið er í rannsókn lögreglu en ekki eru skráðir áverkar á börnunum að því er segir í dagbók lögreglu.

Á fjórða tímanum í nótt var tilkynnt til lögreglu um líkamsárás í Árbænum en þar hafði verið ráðist á ungmenni. Áverkar voru ekki skráðir samkvæmt dagbók lögreglu og sá sem réðst á ungmennin var farinn af vettvangi. Málið er í rannsókn og er búið að hafa sambandi við forráðamenn og Barnavernd vegna málsins.

Tilkynnt um líkamsárás í Austurbænum (hverfi 105) á fimmta tímanum í nótt. Þar hafði maður ráðist á konu og ógnað henni með eggvopni. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu en ekki voru skráðir áverkar á konunni að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

mbl.is