Fóru gegn Ingibjörgu sem lætur af störfum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lætur af störfum sem forstjóri mannréttinda- og …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lætur af störfum sem forstjóri mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE á laugardag. Ljósmynd/Rósa Braga

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, lætur af störfum sem forstjóri mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE á laugardag. Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is, en RÚV greindi fyrst frá.

Ingibjörg var ráðin forstjóri stofnunarinnar árið 2017 til þriggja ára á sama tíma og tveir aðrir forstjórar annarra undirstofnana ÖSE, sem snúa að fjölmiðlafrelsi og réttindum minnihlutahópa, voru skipaðir, sem og forstjóri stofnunarinnar í heild sinni.

57 ríki eiga aðild að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og hefur hvert þeirra neitunarvald þegar kemur að skipan æðstu yfirmanna. „Það sem kemur upp er að Aserbaídsjan setur sig upp á móti þeim sem er yfir fjölmiðlastofnuninni,“ segir Ingibjörg. Tadsíkistan hafi síðar sett sig upp á móti skipan hennar og Tyrkir tekið undir. Því munu allir fjórir yfirmenn ÖSE láta af störfum.

Reynt að vængstýfa yfirmenn ÖSE

„Tyrkland hefur viljað að ég útilokaði ákveðin félagasamtök frá fundum stofnunarinnar. Þau segja að það séu hryðjuverkasamtök, en ég hef ekki séð neinar sannanir fyrir því. Ég get ekki ákveðið upp á mitt eindæmi að útnefna samtök sem hryðjuverkasamtök,“ segir Ingibjörg.

Aðspurð játar hún að það setji yfirmenn stofnunarinnar í erfiða stöðu að hvert einasta ríki hafi neitunarvald gagnvart skipan þeirra enda sé það hlutverk stofnunarinnar að hafa eftirlit með framferði ríkjanna. „Það gerir það í sjálfu sér. Við erum að strjúka ríkjunum andhæris,“ segir hún.

Ingibjörg segir að árin þrjú í starfi hafi verið ánægjuleg og hún hafi haft gaman af að vinna þar. „Ég sé eftir því samstarfi en það er auðvitað erfitt að vinna þegar reynt er að vængstýfa mann.“ Hún er á Íslandi núna og segir óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér, en hún muni í það minnsta reyna að njóta íslenska sumarsins næstu vikur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert