ÍE verður Landspítalanum innan handar fyrstu dagana

ÍE mun aðstoða Landspítalann við innleiðingu hugbúnaðar sem notaður er …
ÍE mun aðstoða Landspítalann við innleiðingu hugbúnaðar sem notaður er við skimanir mbl.is/Kristinn Magnússon

Landspítalinn tekur við skimunum við landamæri Íslands á morgun, en að sögn Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar mun Íslensk erfðagreining vera spítalanum innan handar fyrstu dagana.  

Íslensk erfðagreining mun aðstoða Landspítalann við innleiðingu hugbúnaðar ÍE sem notaður er við skimunina. Þá mun ÍE einnig sjá til þess að ekkert fari úrskeiðis þegar Landspítalinn tekur við kyndlinum.

Í samtali við mbl.is segir Kári að þótt ÍE muni aðstoða spítalann hafi mögulegt hlutverk fyrirtækisins ekki breyst. Íslensk erfðagreining muni aðeins styðja við spítalann þangað til hann getur framkvæmt skimanir hjálparlaust.

Hann segir að Íslensk erfðagreining muni hætta að skima eftir veirunni við landamæri og rannsaka sýni í dag, og að ákvörðunin um að hætta skimun standi.

Kári sagði ekki víst hversu lengi ÍE myndi aðstoða landspítalann, en að mikilvægt væri að ferlið gengi snurðulaust.

Íslensk erfðagreining.
Íslensk erfðagreining. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert