Vilja að maður sem ók á barn gefi sig fram

Lögreglan á Vestfjörðum óskar þess að ná tali af ökumanni bifreiðar sem ók á dreng sem kenndi sér meins á fæti í kjölfarið. 

Ökumaður þessi mun hafa ekið grárri fólksbifreið og atvikið mun hafa gerst um miðjan dag sl. sunnudag á Seljalandsvegi. Þess er óskað að ökumaðurinn gefi sig fram við lögregluna í síma 4440400“, skrifar lögreglan í Facebook-færslu.

Drengurinn var á reiðhjóli þegar ekið var á hann. Bílstjórinn nam staðar og athugaði með líðan drengsins en hélt svo áfram án þess að gera nánar grein fyrir sér.

Nítján ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum í síðustu viku. Sá sem hraðast ók var á 124 km hraða í Arnkötludal þar sem 90 kílómetra hraði á klukkustund er leyfilegur. Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. 

Einn ökumaður var stöðvaður fyrir akstur án ökuréttinda og voru jafnframt höfð afskipti af ökumönnum tveggja bifhjóla þar sem búnaði hjólanna var ábótavant.

Þá datt ölvaður maður af rafmagnshlaupahjóli í miðbæ Ísafjarðar aðfaranótt sunnudags. Maðurinn meiddist og var fluttur á sjúkrahús. Lögreglan á Vestfjörðum bendir á að ölvun og rafmagnshlaupahjól fari ekki vel saman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert