„Dýr gera ekki svona“

Ljósmynd/Gunnar Ríkharðsson

Sex vikna gömlu lambi var slátrað og það úrbeinað og eldað á Dritvík á Snæfellsnesi. Þetta staðfestir lögreglan á Vesturlandi.

Mynd af hræinu var birt í hópi sauðfjárbænda á Facebook. Vísir greindi fyrst frá málinu.

Edda Bára Sveinbjörnsdóttir, eigandi lambsins segist vera afar sorgmædd eftir atburðinn.

„Það er bara eitt orð yfir þetta; viðbjóður,“ segir Edda. Hún segir að verksummerki á staðnum bendi sterklega til þess að verknaðurinn hafi verið af mannavöldum.

„Dýr gera ekki svona. Þau úrbeina ekki bráðina.“

Að sögn Lögreglunnar á Vesturlandi er málið mjög sérstakt. Lambinu var slátrað og það var eldað á staðnum, en lögreglan skoðar nú hvort einhverjar óeðlilegar mannferðir hafi verið á svæðinu sem hægt er að tengja við verknaðinn.

mbl.is