Erfið samningalota Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands

Flugfreyjur funda með Icelandair hjá ríkissáttasemjara.
Flugfreyjur funda með Icelandair hjá ríkissáttasemjara. Eggert Jóhannesson

Gangi ekki að semja á milli Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands, segir Jens Bjarnason, formaður samninganefndar Icelandair, að hann geti ekki annað en „tilkynnt forstjóra og stjórn að þetta hafi ekki tekist“. Samningafundur aðila stendur nú yfir hjá ríkissáttasemjara, en kjarasamningur félaganna sem undirritaður var þann 25. júní s.l.,  var felldur af félagsmönnum Flugfreyjufélagsins í síðustu viku með rúmlega 72% greiddra atkvæða. Samningar hafa verið lausir frá síðasta ári og langt virðist milli deiluaðila í þessari hörðu og langvinnu kjaradeilu.

Í samtali við mbl.is lýsir Jens miklum erfileikum í rekstrarumhverfi félagsins. Félagið sé í harðri alþjóðlegri samkeppni við önnur félög sem hafi allt annan og lægri kostnaðargrunn sem Icelandair geti ekki keppt við til langframa. Nefnir hann þar t.d. Wizzair sem mjög hefur aukið umsvif sín hér á landi á síðustu misserum og dótturfélag SAS í Írlandi, sem stofnað var til þess að lækka kostnað félagsins.

Telja að lengra verði ekki komist 

Um samningaferlið segir Jens „geta sett sig í spor viðsemjanda“, sem vilji „standa vörð um kjör og réttindi sem búið er að berjast fyrir í ár og áratugi“ en áréttir jafnframt að rekstrarumhverfið eigi sér engar sögulegar hliðstæður. Félagið hafi boðið launahækkun á yfirstandandi samningstíma en farið þess á leit við flugfreyjur að gefið verði svigrúm í vinnuskyldu og hvíldartíma til þess að ná fram hagræðingu og betri nýtingu á starfsfólki. Það átak hafi tekist vel með flugmönnum, sem hafi samþykkt breytingar á kjarasamningi með 97% atkvæða.  Ásetningarsteinninn sé því að hvaða marki flugfreyjur eru tilbúnar til að taka þátt í hagræðingu félagsins í þessu erfiða árferði.  

Jens er afdráttarlaus með að Icelandair geti ekki teygt sig lengra. Það hafi skýrt komið fram hjá forstjóra félagsins. Hann segir að hagræðingu verði að ná fram til að tryggja framtíð reksturs. Takist það ekki er það í höndum stjórnar að ákveða framhaldið og bætir því við að mikill fjöldi félagsmanna Flugfreyjufélagsins hafi sett sig í beint samband og lýst yfir vonbrigðum með ástandið og spurt um úrræði sín.

mbl.is