Kópavogsbær kynnir græna krossinn

Vegfarendur eiga nú kost á því að ganga þvert yfir …
Vegfarendur eiga nú kost á því að ganga þvert yfir gatnamótin í stað þess að fara fyrst yfir eina götu og svo næstu. Ljósmynd/Kópavogsbær

Öryggi vegfarenda var haft að leiðarljósi þegar ný umferðarljós og merkingar við gatnamót Borgarholtsbrautar og Urðarbrautar í Kópavogi hönnuð og sett upp. Þau hafa nú verið tekin í notkun en farið var að óskum foreldra barna á Kársnesi sem hafa óskað eftir auknu umferðaröryggi á gatnamótunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Með breytingunum verða það gangandi vegfarendur sem eiga forganginn á gatnamótunum en ekki ökutæki. Um gatnamótin fer mikill fjöldi gangandi og hjólandi vegfarenda, meðal annars á leið í og úr skóla eða í Sundlaug Kópavogs.

Gangandi vegfarendur eiga nú kost á því að ganga þvert yfir gatnamótin og stytta þannig leið sína í stað þess að þurfa að fara fyrst yfir eina götu og svo aðra. Rautt ljós er á alla umferð ökutækja á meðan gangandi fara yfir gatnamótin. Fyrirkomulagið er þekkt erlendis en er nýjung á Íslandi samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningunni.

Krossinn er málaður með efni sem á að koma í …
Krossinn er málaður með efni sem á að koma í veg fyrir hálku. Ljósmynd/Kópavogsbær

Efnið sérstaklega hannað fyrir hjólaumferð

Grænn kross hefur verið málaður á götuna sem leiðbeinir gangandi vegfarendum um hvaða leið þeir eiga að fara og þá eru fótspor máluð á krossinn til að skýra fyrirkomulagið enn frekar fyrir vegfarendum.

Krossinn er málaður með sérstöku efni sem kemur í veg fyrir hálka myndist. Efnið uppfyllir Evrópu staðla EN-1871 og EN-1436 fyrir yfirborðsmerkingar og viðnám og er sérstaklega hannað þar sem búast má við bif- og reiðhjóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert