Pepsico og Ölgerðin gefa sex milljónir

Undirbúnir matarpokar hjá Mæðrastyrksnefnd fyrir jól.
Undirbúnir matarpokar hjá Mæðrastyrksnefnd fyrir jól. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Bandaríska matvælafyrirtækið Pepsico hefur ákveðið að styrkja Mæðrastyrksnefnd á Íslandi um tæpar 3 milljónir króna í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Ölgerðin, sem selur vörur Pepsico hér á landi, hefur jafnframt ákveðið að jafna framlag bandaríska fyrirtækisins og fær Mæðrastyrksnefnd því fjármagn og vörur að andvirði tæplega 6 milljónir króna.

Fram kemur í fréttatilkynningu á vef Ölgerðarinnar að framlög Pepsico og Ölgerðarinnar jafngildi um 1.500 máltíðum sem farið verður í að úthluta í haust hjá Mæðrastyrksnefnd. Sjö kvenfélög standa að baki nefndinni, sem reiðir sig nær alfarið á velvild og styrki frá fyrirtækjum og almenningi til að sinna starfi sínu.

„Styrkir á borð við þá sem við fáum nú frá Pepsico og Ölgerðinni er algjörlega ómetanlegur og kemur sér vel fyrir þá fjölmörgu sem þurfa á aðstoð að halda. Fjölmargar barnafjölskyldur fá nú veglegan styrk en mörg hundruð fjölskyldur treysta á aðstoð frá okkur,“ er haft eftir Aðalheiði Frantzdóttur, framkvæmdastjóra Mæðrastyrksnefndar, í tilkynningunni.

Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar segir þá að þegar Pepsico hafi haft samband vegna fyrirhugaðs styrks hafi ekki annað komið til greina en að jafna framlag þeirra. „Og það er okkur mikil ánægja að halda áfram að standa við bakið á Mæðrastyrksnefnd og því góða starfi sem þar fer fram,“ segir Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert