Smitaðir en mótefnalausir fá vottorð

Þórólfur Guðnason (t.h.) ásamt Rögnvaldi Ólafssyni, aðalvarðstjóra hjá almannavörnum.
Þórólfur Guðnason (t.h.) ásamt Rögnvaldi Ólafssyni, aðalvarðstjóra hjá almannavörnum. Ljósmynd/Lögreglan

Þeir sem smitast hafa af kórónuveirunni en hafa ekki mælst með mótefni geta fengið vottorð um að þeir hafi fengið veiruna og fái þannig ekki veiruna aftur. Þetta segir Þórólfur Guðnason í samtali við mbl.is.

Spurður hvers vegna fólk sem hefur veikst og jafnvel legið dögum saman í miklum veikindum vegna COVID-19, veikinnar sem kórónuveiran veldur, mælist stundum ekki með mótefni segir Þórólfur:

„Við vitum að næmi mótefnamælinganna er ekki 100% og mismunandi mæliaðferðir gefa mismunandi niðurstöðu. Upplýsingar erlendis frá eru þó á þá leið að einstaklingar sem hafa sýkst séu að fá veikina aftur.“

Fleiri varnir en mótefni

Mótefni er ekki eina vörnin sem líkaminn byggir upp eftir að hafa veikst af COVID-19, að sögn Þórólfs. 

„Vörnin felst líka í annarri tegund, ekki bara í mótefnum, heldur líka í svokölluðu frumubundnu ónæmi, þannig að við höldum okkur enn við það að fólk sem hefur fengið staðfesta sýkingu sé enn varið þrátt fyrir að mælast ekki með mótefni.“

Spurður hvort þeir sem hafa smitast geti þá fengið vottorð um slíkt segir Þórólfur: „Það fær vottorð um að það hafi fengið veiruna.“

Hingað til hafa Íslendingar ekki tekið gild vottorð frá þeim sem koma erlendis frá og hafa farið í skimun fyrir veirunni eða mótefnamælingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert