Þjóðhátíð aflýst

Engin þjóðhátíð verður í ár.
Engin þjóðhátíð verður í ár. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum verður ekki haldin í ár. Þetta varð endanlega ljóst í dag eftir að þjóðhátíðarnefnd sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis. Þau sem hafa keypt sér miða geta valið milli þess að fá hann endurgreiddan, flytja miðann yfir á þjóðhátíð 2021 eða að styrkja ÍBV um andvirði miðans.

Hingað til hefur verið stefnt að því að halda hátíðina í einhverri mynd í samræmi við sóttvarnatilmæli, en í yfirlýsingunni segir að allar götur frá því kórónuveiran breiddist út hafi þjóðhátíðarnefnd haft gott samráð við almannavarnir og unnið að ýmsum mögulegum sviðsmyndum. 

Í samtali við mbl.is fyrir viku síðan sagði Hörður Orri Grettisson, formaður þjóðhátíðarnefndar ÍBV, að beðið væri eftir að mál skýrðust um hvaða fjöldatakmarkanir yrðu í gildi um verslunarmannahelgina. Játaði hann þó að miðasala væri alls engin.

Munu ekki standa fyrir neinum viðburðum

Eftir að ljóst varð að ekki verður rýmkað um núverandi fjöldatakmarkanir fyrir verslunarmannahelgi hefur því verið ákveðið að blása hátíðina af „með einu og öllu“ eins og segir í yfirlýsingunni. ÍBV muni ekki standa fyrir einum einasta viðburði um verslunarmannahelgina.

Í yfirlýsingunni er bent á að þjóðhátíð sé gríðarmikilvæg fjáröflun fyrir barna- og unglingastarf ÍBV og ein ástæða þess að félagið getur haldið úti jafnöflugu starfi í litlu samfélagi og raun ber vitni. Kjósi fólks að fá miðann ekki endurgreiddan sé slíkur stuðningur gríðarlega vel þeginn á þessum erfiðu tímum.

Þrátt fyrir ákvörðunina verður nýtt þjóðhátíðarlag ársins 2020 frumflutt í Brennslunni á FM957 á föstudag. Höfundar þess eru bræðurnir Ingólfur og Guðmundur Þórarinssynir, en lagið ber heitið Takk fyrir mig

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is