Þjófur handsamaður á hlaupum

Lögreglan handtók manninn á hlaupum í Elliðaárdalnum.
Lögreglan handtók manninn á hlaupum í Elliðaárdalnum. mbl.is/Hari

Tvær misheppnaðar tilraunir voru gerðar til innbrots í Árbænum í kringum miðnættið. Miðað við lýsingar tilkynnenda virtist vera um sama mann að ræða. 

Lögreglunni barst tilkynning um tilraun til innbrots í hús í Árbæ klukkan 23:46. Rúmri klukkustund síðar barst tilkynning um tilraun til innbrots í annað hús í Árbæ. Skömmu síðar sér lögregla þann grunaða á bifreið en hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og upphófst þá eftirför um hverfið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu yfirgaf maðurinn bifreiðina og hljóp inn í Elliðaárdalinn. Eftir nokkra leit var maðurinn handtekinn og vistaður í fangageymslu. Kom í ljós að maðurinn hafði stolið bifreiðinni á seinni innbrotsstaðnum.

mbl.is