Tiltekin ríki verði undanþegin skimun

Skimun við landamærin.
Skimun við landamærin. Morgunblaðið/Íris

Samkvæmt heimildum mbl.is eru allar líkur á því að sóttvarnalæknir muni á blaðamannafundi í dag, kynna breytta stefnu við skimun komufarþega á Keflavíkurflugvelli. Þannig verði farþegar frá ákveðnum ríkjum, sem skilgreind hafa verið sem lágáhættusvæði, undanþegnir skimun sem mun létta á þeim flöskuhálsi sem yfirvofandi hefur verið.

Líkt og mbl.is hefur skýrt frá, hafa áhyggjur farið vaxandi af því að eftirspurn á komum til landsins myndu brátt vaxa umfram þá 2.000 manna skimunargetu sem hingað til hefur verið unnið eftir. Þær aðstæður hafa kallað fram áleitnar spurningar um það með hvaða hætti velja og hafna ætti þeim flugum sem þegar hafa boðað komu sína hingað til lands.

Fyrrgreindar heimildir herma að sóttvarnalæknir muni tilgreina ákveðin ríki til undanþágu og hafa bæði Danmörk og Noregur verið nefnd í því samhengi. Síðastliðna þrjá daga hafa 29% af flugum til Keflavíkurflugvallar verið frá Kaupmannahöfn og Osló. Því er ljóst að ef af verður, mun það létta á álagi við skimun og auka svigrúm til að mæta annarri eftirspurn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert