Tvö ár fyrir að nauðga fötluðum manni

Dómurinn taldi manninn hafa brotið á einstaklega grófan hátt gegn …
Dómurinn taldi manninn hafa brotið á einstaklega grófan hátt gegn varnarlausum einstaklingi sem hann átti í trúnaðarsambandi við. mbl.is/Þór

Hérðasdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga í þrígang ungum manni, sem glímir við þroskahömlun.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi verið kennari brotaþolans í um átta ára skeið og einnig sinnt honum á frístundaheimili eftir skóla. Ungi maðurinn glími við djúpa þroskahömlun, ódæmigerða einhverfu, heilalömun og flogaveiki og geti því hvorki spornað við né skilið þýðingu hegðunarinnar.

Rannsókn málsins hófst eftir að móðir unga mannsins lagði fram kæru fyrir hönd hans, en hún sagðist tvisvar, þegar hún var að aðstoða hann við að skipta um föt, hafa tekið eftir sæði í nærbuxum hans. Í annað skiptið hafi það verið eftir að hann fór í bíó með hinum ákærða en í hitt skiptið eftir að þeir fóru saman í lautarferð í Heiðmörk.

Í kjölfar þess hefðu hún og faðir unga mannsins rætt við réttindagæslumann fatlaðra og lögreglu, og síðar við þann ákærða sem hefði viðurkennt að hafa hjálpað brotaþola við að fróa sér. Gaf maðurinn þá skýringu að hann hefði lesið það á netinu að það væri gott fyrir fólk með flogaveiki til að losa um tilfinningar. Lögðu foreldrarnir síðar fram kæru.

Játaði verknaðinn en sagðist hafa verið beðinn um það

Fyrir dómi játaði maðurinn að hafa fróað brotaþola í þrígang, á fyrrnefndum tveimur stöðum sem og í Egilshöll, en kvaðst ekki hafa misnotað sér andlega og líkamlega fötlun unga mannsins, heldur hefði hann margítrekað farið þess á leit við ákærða að hann fróaði honum. Ungi maðurinn hefði ekki getað gert þetta sjálfur en dregið hönd ákærða að klofsvæðinu og látið í ljós skýran vilja.

Í dómnum er þessum málatilbúnaði hafnað. Telur dómurinn sannað að ákærði hafi notfært sér ástand unga mannsins og stöðu sína gagnvart honum. Aðferðin við brotið sé „misneyting“ og samþykki dugi ekki til sem refsileysisástæða.

Var maðurinn því fundinn sekur og dæmdur, sem fyrr segir, í tveggja ára fangelsi. Þá var honum gert að greiða unga manninum 1,2 milljónir króna með vöxtum og verðtryggingu. Sömuleiðis er honum gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar, upp á 1.450.000 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur, upp á 1.250.000 krónur og annan sakarkostnað að fjárhæð 650.740 krónur.

mbl.is