Úr 420 þúsund í 90 þúsund

Í júní fækkaði brottfararfarþegum um 95,7% samanborið við sama mánuð …
Í júní fækkaði brottfararfarþegum um 95,7% samanborið við sama mánuð í fyrra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samkvæmt tilraunatölfræði gistinátta hjá Hagstofu Íslands er áætlað að gistinætur á hótelum í júní hafi dregist saman um 79% og fækkað úr 420 þúsund í 90 þúsund samanborið við júní í fyrra.

Í maí fækkaði skráðum gistinóttum um 87%, úr 570 þúsund í tæplega 76 þúsund, samanborið við maí í fyrra. Þar af drógust gistinætur á hótelum saman um 88%, úr 315 þúsund í 37 þúsund. Nýting hótelherbergja lækkaði um 47 prósentustig, úr 56% í maí í fyrra niður í 9% síðastliðinn maí. Framboð hótelherbergja dróst einnig saman í kjölfar þess að 47 hótel höfðu lokað í maí. Framboð herbergja lækkaði því um 26%, úr tæplega 11 þúsund herbergjum niður í tæplega 8 þúsund.

Í júní fækkaði brottfararfarþegum um 95,7% samanborið við sama mánuð í fyrra, úr 259 þúsund í rúmlega 11 þúsund. Séu síðustu 12 mánuðir bornir saman við sama tímabil árið áður hefur farþegum fækkað úr rúmlega 2,9 milljónum í rúmlega 1,8 milljónir, eða um 35%.

Bílaleigubílar í umferð voru 15.600 talsins í júlí og fækkaði þeim um 37% samanborið við sama mánuð síðasta árs. Séu síðustu 12 mánuðir bornir saman við sama tímabil í fyrra hefur heildarfjöldi bílaleigubíla dregist saman úr 25 þúsund í 23 þúsund, eða 8%, á meðan fjöldi bílaleigubíla í umferð hefur dregist saman um 15%, úr 23.500 í 20.000.

mbl.is