„Væri nánast einn Íslendingur að deyja á dag“

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ljósmynd/Heilbrigðisráðuneytið

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, benti á það á blaðamannafundi í dag að ef ástandið á Íslandi vegna kórónuveirufaraldursins væri með sama hætti og það er í Bandaríkjunum þessa stundina, væri eitt dauðsfall daglega á Íslandi.

Ef tekið er meðaltal daglegra dauðsfalla síðustu viku í BNA, 724, og það tekið sem hlutfall af heildaríbúafjölda landsins, væri hliðstæður fjöldi hér á landi um 0,8. 

28. apríl voru allir komnir af gjörgæslu hér á landi vegna kórónuveirunnar en samtals hafa tíu látist frá upphafi faraldursins. Staðfest smit eru 1.905 uppsöfnuð. „Þetta er náttúrulega mjög góður árangur hjá þeim, að það skuli nánast enginn vera alvarlega veikur svo vikum skipti og að þetta séu meira og minna smit sem eru eldri,“ sagði Óskar. 

„Við hljótum að fagna því. Ef við værum að bera saman tölur miðað við til dæmis Bandaríkin væri nánast einn Íslendingur að deyja á dag. Í dag. Þannig að þetta er ótrúlega mikill og góður árangur af þessu starfi sem hefur verið hérna undanfarna mánuði,“ sagði Óskar jafnframt.

Engin innanlandssmit í tólf daga

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á sama fundi að þrátt fyrir þann vísi að hópsmiti sem kom upp hér á landi í lok síðasta mánuðar hafi greinilega náðst að hemja útbreiðslu smitanna verulega. Engin innanlandssmit hafi greinst hér á landi í 12 daga og hundruð voru send í sóttkví.

Fram kom í máli sóttvarnalæknis að Ísland hefði sérstöðu þegar kæmi að aðferðafræði við skimun við landamæri, að ekkert land væri í raun og veru að gera þetta eins og Ísland. Aðferðirnar hafi þó sýnt góðan árangur.

„Ég held að við getum sagt að það virðist vera lítið smit í íslensku samfélagi og smithættan hér innanlands virðist tengjast einkum ferðamönnum, sérstaklega Íslendingum eða einstaklingum sem hafa hér mikið tengslanet innanlands,“ sagði Þórólfur. Til þess er heimkomusmitgátin gerð.

Sótt­varna­lækn­ir til­kynnti þá að farþegar frá Nor­egi, Dan­mörku, Finn­landi og Þýskalandi muni fram­veg­is ekki þurfa að fara í skimun eða sótt­kví við kom­una til lands­ins. Þetta tek­ur gildi strax á fimmtu­dag­inn, 16. júlí. Þessi fjög­ur lönd bæt­ast við Græn­land og Fær­eyj­ar, þaðan sem farþegar mega þegar koma án sýna­töku við landa­mær­in.

mbl.is