Óvenjudjúp lægð miðað við árstíma

Kort Veðurstofa Íslands.

Á Grænlandshafi nálgast dýpkandi lægð, sem mun stjórna veðrinu á landinu næstu daga. Lægðin hreyfist norðaustur yfir landið á morgun og hinn og virðist ætla að verða óvenjudjúp miðað við árstíma. Vindur fer því vaxandi af suðaustri með rigningu í dag og verður allhvass undir Eyjafjöllum síðdegis og einnig verður hvasst á miðhálendinu í kvöld. Í gildi er gul veðurviðvörun á miðhálendinu vegna þess, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Á morgun, fimmtudag snýst síðan í norðanátt, fyrst á Vestfjörðum og bætir talsvert í rigningu þar og kólnar í veðri á öllu landinu. Á föstudag og fram yfir helgina er síðan spáð ákveðinni norðanátt með kalsarigningu á norðanverðu landinu, en þurrara og mildara veðri sunnan heiða. Ekki er útlit fyrir að norðanskotið gangi að fullu niður fyrr en á mánudaginn kemur.

Ferðalangar og útivistarfólk ættu því að kynna sér vel veðurspár og ástand vega áður en lagt er af stað í ferðalög. Einnig má benda á að grjóthrun og skriður geta orðið í fjallendi þegar mikið rignir og reikna má með vatnavöxtum í ám. Ekki er ólíkleg að fleiri veðurviðvaranir bætist við þegar líður á vikuna,“ segir ennfremur á vef Veðurstofu Íslands.

mbl.is/Brynjar Gauti

Í kvöld er spáð allhvassri suðaustanátt á sunnanverðu landinu. Undir Eyjafjöllum er hætt við vindhviðum yfir 20 m/s og þar skyldi varast akstur ökutækja sem viðkvæm eru fyrir vindi. Á sunnan- og vestanverðu hálendinu er spáð 13-18 m/s, en hviðum að 25 m/s. Slíkt getur verið til trafala fyrir ferðalanga, einkum og sér í lagi þá sem hafast við í tjaldi.

Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir miðhálendið og tekur hún gildi klukkan 19 í dag og gildir til 3 í nótt, aðfararnótt fimmtudags. „Spáð er suðaustan 13-18 m/s á sunnan- og vestanverðu hálendinu. Vindstyrkur getur náð allt að 25 m/s í hviðum en slíkt er varasamt fyrir göngufólk og þá sem hafast við í tjöldum,“ segir í viðvörun á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Kort/Veðurstofa Íslands

Hægir vindar og dálítil væta hér og þar, en þokuloft eða súld úti við norður- og austurströndina. Austlæg átt, víða 5-10 m/s seinnipartinn, 10-15 undir Eyjafjöllum en allt að 13-18 sunnan- og vestan til á miðhálendinu í kvöld. Fer að rigna á vestanverðu landinu í dag, en þurrt að mestu eystra. Hiti 8 til 16 stig að deginum, hlýjast í innsveitum NA-til.

Á fimmtudag:

Gengur í suðvestan 13-18 m/s við SA-ströndina en norðaustan 13-20 NV-til. Annars hægari og rigning í öllum landshlutum. Hiti víða 7 til 17 stig, hlýjast og úrkomuminnst á NA-landi.

Á föstudag:
Allhvöss eða hvöss norðanátt, rigning og svalt veður á V-verðu landinu, en mun hægara, hlýrra og úrkomuminna eystra.

Á laugardag og sunnudag:
Útlit fyrir áframhaldandi norðanátt með kalsarigningu á N-verðu landinu, en bjartviðri og mildara veðri sunnan heiða.

Á mánudag:
Lægir líklega og léttir til víða um land og hlýnar heldur, en áfram lítilsháttar væta og fremur svalt NA-til.

Á þriðjudag:
Lítur út fyrir hægar suðlægar áttir, lítilsháttar vætu hér og þar og hlýnandi veður norðan heiða.

mbl.is