Óvíst hvernig mat er lagt á „brýn erindi“

Nokkrir hafa komið hingað til lands með einkaþotum frá löndum …
Nokkrir hafa komið hingað til lands með einkaþotum frá löndum hvaðan íbúar mega almennt ekki koma til Íslands. Fólkið á myndinni kom þó frá Bretlandi og þurfti því enga undanþágu. mbl.is/Árni Sæberg

Beiðnir um undanþágur frá ferðatakmörkunum stjórnvalda eru yfirfarnar af sérstökum starfshópi sem í sitja fulltrúar utanríkisráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Íslandsstofu. Þetta kemur fram í skriflegum svörum Útlendingastofnunar og utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Utanríkisráðuneytið hefur tekið á móti fyrirspurnum um undanþágur vegna brýnna erindagjörða og hefur Útlendingastofnun veitt ráðgjöf, í samráði við lögreglu, um það hvort skilyrði fyrir komu til landsins eru uppfyllt þegar þess er óskað. Endanleg ákvörðun er þó í höndum lögreglu.

Líkt og greint var frá í gær hafa einhverjir Bandaríkjamenn komið hingað til lands á einkaþotum síðustu daga og vikur þrátt fyrir ferðabannið, en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í gær að það væri gert með leyfi frá utanríkisráðuneytinu.

Engar undanþágur fyrir ferðamennsku

Ættingjar EES-búa og námsmenn á leið í nám á Íslandi eru meðal þeirra sem geta sótt um undanþágu, en einnig má sækja um undanþágu fyrir einstaklinga „sem þurfa nauðsynlega að ferðast vegna starfa sem teljast efnahagslega mikilvæg og störf þeirra geta ekki verið framkvæmd síðar eða erlendis.“ Ekki eru þó veittar undanþágur fyrir ferðamennsku af neinu tagi.

Greint hefur verið frá því að bandaríski leikarinn Terry Crews sé hér á landi. Ekki liggur fyrir hvort ferðalagið er tilkomið vegna efnahagslegra mikilvægra starfa hans, en þó er ljóst að hann hefur notið lífsins á ferðamannastöðum landsins. 

Umsækjendur, sem telja sig eiga brýnt erindi hingað til lands, þurfa að leggja fram gögn því til staðfestingar, en ekki fást upplýsingar um það hjá Útlendingastofnun hvernig lagt er mat á þau gögn né heldur hvort eftirlit sé haft með því að einstaklingar sem koma hingað til lands séu í raun hér í uppgefnum tilgangi. Ekki er þó veitt sérstök heimild til slíks eftirlits í reglugerð.

Mbl.is hefur óskað eftir upplýsingum um það hverjir sitja í undanþágustarfshópnum, en ekki fengið svör enn.

Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við upplýsingar í áréttingu dómsmála- og utanríkisráðuneytis, þar sem fram kemur að lögregla beri endanlega ábyrgð á undanþágum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert