Stormviðvörun á átta svæðum af 17

Það horfir ekki vel á um veðrið í kvöld og …
Það horfir ekki vel á um veðrið í kvöld og á morgun. mbl.is/Rax

Landhelgisgæslan er í viðbragðsstöðu vegna stormviðvarana á átta spásvæðum af sautján í kringum landið. Vaktstjóri í stjórnstöð gæslunnar kveðst ekki hafa áhyggjur af sjómönnum, sem rýni öllu jöfnu vel í spár á hverjum degi, en að hann hafi meiri áhyggjur af „hobbýistum“ á minni bátum.

„Við sjáum að sjósókn er með minna móti. Bátarnir halda sig frekar heima í nótt í stað þess að þurfa að koma síðan aftur inn út af brælu. Ef það eru 5-8 metrar koma þeir krókunum hvort eð er ekki niður á botn og þegar þú ert með 12 veiðidaga á mánuði er ekki ástæða til að nota þá í svona veður,“ segir vaktstjórinn. „Þetta er að byrja svona upp úr miðnætti á sjónum og þetta lítur ekki vel út.“

Vaktstjórinn bendir á að veður og viðvaranir sem þessar eru ósköp algeng fyrirbæri á veturna. Þetta sé hins vegar óvanalegt á þessum árstíma og verra að nú eru smáskútur á ferð sem væru ekki á ferð um vetur. Hann vonar því að fólk hlusti á spána.

Óvenjumikil úrkoma

Sjóveðurspá er á þá leið að það hvessir með kvöldinu en djúp lægð er á leið norðaustur yfir landið með nóttinni og á morgun. Verst verður þetta á Vestfjarðamiðum, þar sem spáð er 15-20 metrum í nótt og 18-25 á morgun. 

Lægðinni fylgir óvenjumikil úrkoma fyrir árstímann, eins og segir hjá Bliku. Þar segir jafnframt: „Verður að segjast óvenjulegt í alla staði, bæði úrkomumagnið og hretið um hásumar.  Snýst ekki um að klæða af sér veður eins og stundum er sagt heldur að koma sér í húsaskjól.  Ekki síst á það við um fjölmarga gönguferðamenn á Hornströndum um þetta leyti árs.“

Horfur næsta sólarhring á vedur.is: Austan og suðaustan 8-13 m/s, en 13-18 á S-verðu hálendinu. Rigning um allt land og talsverð úrkoma V-lands. Vaxandi norðaustanátt NV-til á landinu á morgun, 13-20 m/s síðdegis og suðvestan 13-18 við suðausturströndina. Mun hægari vindur annars staðar, en hvessir SV-lands um kvöldið. Áfram vætusamt og talsverð eða mikil rigning á Vestfjörðum og Ströndum.

mbl.is