Þungt högg fyrir ÍBV

Engin blys verða tendruð í Herjólfsdal þetta árið.
Engin blys verða tendruð í Herjólfsdal þetta árið. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

„Þetta er stærsti tekjustofn félagsins,“ segir Þór Ísfeld Vilhjálmsson, formaður aðalstjórnar ÍBV, um þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Hátíðin verður ekki haldin í ár vegna samkomutakmarkana í tengslum við kórónuveirufaraldurinn og ljóst að bandalagið verður af háum fjárhæðum.

„Þetta eru hátt í 70% af tekjum félagsins sem að hverfa og höggið er mikið,“ segir Þór og bætir við að um sé að ræða tugi milljóna. 

„Nú liggur fyrir að við þurfum að skoða okkar mál ofan í kjölinn, það er ljóst. Það sem við komum til með að reyna að verja eins og við getum er barna- og unglingastarfið.“

Þau sem hafa keypt sér miða geta valið milli þess að fá hann end­ur­greidd­an, flytja miðann yfir á þjóðhátíð 2021 eða að styrkja ÍBV um and­virði miðans.

„Við heyrum velvilja hérna í Eyjum. Við vitum ekki með fólkið uppi á landi en það myndi hjálpa okkur mjög mikið ef það myndi geyma miða til næstu þjóðhátíðar,“ segir Þór.

Hann segir ljóst að fyrsta helgin í ágúst verði furðuleg í Eyjum þetta árið en þó býst Þór við því að slatti af aðkomufólki verði í eyjunni grænu.

„Umræðan hérna er að það verði samt töluvert af fólki í bænum. Maður heyrir að margir sem voru búnir að leigja sér húsnæði hafi ekki sagt upp leigunni. Það verður ábyggilega mikið í mörgum görðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert