Tveir sem völdu sóttkví greindust með veiruna

mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Tveir einstaklingar með íslenskt ríkisfang, sem völdu að fara í sóttkví við komu til landsins frá áhættusvæði, greindust með kórónuveirusmit í gær.

Viðkomandi komu til landsins fyrir sjö dögum og fóru í skimun eftir að hafa fengið einkenni veirunnar, að því er fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

730 farþegar koma með Norrænu til Seyðisfjarðar á morgun. Sýnataka á farþegum fór fram í Hirtshals í Danmörku áður en skipið hélt þaðan á þriðjudag. Einn farþega greindist með jákvætt smit fyrir Covid-19. Óvíst er hvort smitið sé gamalt en viðkomandi ber ekki einkenni veirunnar. Frekari sýnataka og mótefnamæling fer fram þegar skipið kemur til Seyðisfjarðar. Með einstaklingnum í ferð eru fimm aðrir og eru allir í einangrun um borð í skipinu. Aðrir farþegar eru ekki taldir útsettir fyrir smiti og verða því ekki fyrir áhrifum vegna þessa.

Tekin voru  2.158 sýni við landamæraskimun í gær, 14. júlí og greindust sex þeirra jákvæð. Tveir af þeim voru með mótefni en beðið er eftir niðurstöðum úr mótefnamælingu hjá tveimur og eru viðkomandi í einangrun á meðan. Tvö bíða greiningar. Alls eru nú 11 manns með virk smit á Íslandi og eru þau öll í einangrun. 

Frá og með morgundeginum bætast ferðamenn frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi á lista með Færeyjum og Grænlandi og verða undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví vegna Covid-19.

mbl.is