Hlaupið og hjólað á Vestfjörðum

Hlaupið Vesturgötuna milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.
Hlaupið Vesturgötuna milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Ljósmynd/Hlaupahátíð

Í dag hefst hlaupahátíð á Vestfjörðum, en þótt formlegt nafn bendi aðallega til þess að þetta sé hátíð hlaupafólks er þar ekki síður að finna dagskrá fyrir hjólreiðafólk sem og þá sem stunda sjósund. Hvort sem áhugasamir eru að leita að götu- eða utanbrautarhlaupi, eða götu- eða fjallahjólreiðum, þá ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. Börnin eru heldur ekki undanskilin, en enduro-hjólreiðakeppni verður að finna fyrir þau, sem og skemmtiskokk.

Vesturgatan getur reynst mjög gróf yfirferðar.
Vesturgatan getur reynst mjög gróf yfirferðar. Ljósmynd/Hlaupahátíð

Dagskráin byrjar strax í dag með Skálavíkurhlaupi og –hjólreiðum, en þar er hjólað frá Skálavík yfir á Bolungarvík með viðkomu á Bolafjalli.

Veðurspáin á Vestfjörðum er hins vegar ekki með besta móti í dag eða á morgun, en mótshaldarar munu gefa út í dag hvort fella þurfi einhverjar greinar niður. 

Á föstudaginn er svo í boði sjósund og um kvöldið götuhlaup frá Súðavík á Ísafjörð.

Á laugardaginn er svo keppt í maraþon fjallahjólamótinu Vesturgötunni, en þar er hjóluð 55 km leið frá Þingeyri yfir Álftamýraheiði niður í Arnarfjörð og út fjörðinn eftir svokallaðri Vesturgötu og aftur inn í Dýrafjörð og á Þingeyri. Mótið er jafnframt Íslandsmót í maraþon fjallahjólreiðum (XCM). Samhliða þessu verður boðið upp á skemmtihjólreiðar og skemmtiskokk.

Tóm gleði meðal hlaupara á Vesturgötunni í fyrra.
Tóm gleði meðal hlaupara á Vesturgötunni í fyrra. Ljósmynd/Hlaupahátíð

Á sunnudaginn er svo komið að Vesturgötu hlaupinu, en þá er hægt að velja um hálfa (12 km), heila (24 km) eða tvöfalda (45 km) Vesturgötu. Á sunnudaginn er einnig hjóladagskrá fyrir börn og unglinga á Ísafirði, en þar verður svokölluð enduro keppni þar sem keppt er í merktum sérleiðum á fjallahjólum. Fyrir yngstu börnin verður svo boðið upp á krakkaþraut án tímatöku.

Vesturgötu hjólreiðamótið fer fram á laugardaginn.
Vesturgötu hjólreiðamótið fer fram á laugardaginn. Ljósmynd/Hlaupahátíð
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert