Óttast eftirlitslausar SMS-hátíðir

Þjóðhátíð í Eyjum hefur verið aflýst en ljóst er að …
Þjóðhátíð í Eyjum hefur verið aflýst en ljóst er að þrátt fyrir það verður mikill fjöldi fólks í eyjunum um verslunarmannahelgina. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Lögreglan hefur áhyggjur af mikilli hópamyndun um verslunarmannahelgina. Þrátt fyrir að Þjóðhátíð í Eyjum hafi formlega verið aflýst, hafa margir enn ekki hætt við bókanir á húsum á Heimaey. Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn þar segir viðbúið að það verði mikill fjöldi á staðnum þessa helgi.

„Það á eftir að koma í ljós hvað hann verður mikill. Það ræðst mikið af veðri og því hvert fólk sameinast um að fara. Eitt er allavega ljóst að landsmenn munu ætla að skemmta sér þessa helgi. Hvar það verður veit ég ekki,“ segir Jóhannes við mbl.is. 

Hann hefur áhyggjur af því að hátíð með fleiri en 500 manns geti myndast um helgina, eins konar sjálfsprottin útihátíð, hvar sem hún verður. „Sagan hefur verið þannig að það hafa komið upp hátíðir í gegnum SMS-sendingar og Facebook-færslur, þar sem menn sameinast um að hittast á einu svæði. Þetta væri engan veginn nógu gott núna, því hver er aðstaðan á svona svæðum, gæslan og salernisaðstaðan? Þetta er eftirlitslaust,“ segir hann. „Við erum tilbúnir að skoða það ef fólk fer að safnast saman án skipulags.“

Í Eyjum er sem sagt gert ráð fyrir nokkrum fjölda fólks en lögreglan mun áfram fylgjast með bókunum á gististöðum. Þá verður viðbúnaður lögreglu nokkur um verslunarmannahelgina og aðstoð fæst úr landi ef þurfa þykir. 

Gerir rakningu erfiða

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild, segir fjölmennar útilegur og samkomur geta verið mjög slæmar með tilliti til smitrakningar. „Þess vegna beinum við því til fólks að vera frekar í minni hópum, vinahóp eða fjölskyldu, því fjölmennari samkomur gera okkur mun erfiðara fyrir að hafa samband við þá sem voru á staðnum. Smitin geta farið hratt og víða og það er töluverður hausverkur ef fólkið á staðnum kom úr öllum áttum,“ segir hann.

Smitrakningin sé besta vopnið gegn útbreiðslu veirunnar, að kæfa smitin í fæðingu. Það verður þó að vera gerlegt með því að vita hverjir voru á staðnum og hvern þarf að hafa samband við, sem getur verið flókið á sjálfsprottinni útihátíð.

„Þetta er eitthvað sem við vitum að geti gerst og við höfðum til fólks að passa sig og láta ekki freistast. Þetta eru aðrar aðstæður núna og við verðum að taka tillit til þess í þessu sem og öðru,“ segir Rögnvaldur.

Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum.
Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert