„Sáum ódýra flugmiða og ákváðum að skella okkur“

Johannes Hakala kom ásamt félögum sínum frá Noregi til Íslands …
Johannes Hakala kom ásamt félögum sínum frá Noregi til Íslands í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Á miðnætti tóku í gildi nýjar sóttvarnareglur þegar farþegum frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi var bætt á lista yfir þá sem eru undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví vegna kórónuveirunnar. Farþegar sem komu með flugi í morgun til Keflavíkur voru ánægðir með að sleppa við skimun.

Meðal farþega í flugi SAS frá Ósló var Johannes Hakala, en hann og félagar hans ákváðu með stuttum fyrirvara að skella sér til Íslands. Keyptu þeir miðana fyrir aðeins tveimur vikum, en þá var áætlunarflug aftur að komast af stað.

Þrátt fyrir faraldurinn var útþráin enn sterk hjá þessum rúmlega tvítugu Norðmönnum og Ísland virtist ákjósanlegur kostur.

„Við sáum ódýra flugmiða og ákváðum að skella okkur. Við vorum með grímu allt flugið en við fórum ekki í sýnatöku, sem var bara fínt,“ sagði Johannes við komuna í morgun. Þeir félagar áforma að fara Gullna hringinn, en sjá svo til með framhaldið.

mbl.is