Stærsti skjálftinn í rúma viku

Skjálftarnir eiga flestir upptök sín á sama stað skammt frá …
Skjálftarnir eiga flestir upptök sín á sama stað skammt frá Gjögurtá. Kort/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálfti af stærðinni 3,0 varð 9 kílómetra norðnorðvestur af Gjögurtá, við mynni Eyjafjarðar klukkan 14:39 í dag. Er það stærsti skjálftinn sem mælst hefur á svæðinu síðan 8. júlí þegar skjálfti af stærðinni 4,2 varð.

Veðurstofu Íslands barst tilkynning um að skjálftinn í dag hefði fundist á Ólafsfirði.

Í athugasemdum jarðvísindamanns á vef Veðurstofunnar segir að frá því að jarðskjálftahrinan við mynni Eyjafjarðar hófst 19. júní hafi sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett yfir 13.000 skjálfta. Þrír skjálftar yfir 5,0 að stærð hafa mælst í hrinunni.

Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert