Tilslakanir beint eftir verslunarmannahelgi

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, Þórólf­ur Guðna­son, sótt­varna­lækn­ir og Páll Þór­halls­son, verk­efna­stjóri …
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, Þórólf­ur Guðna­son, sótt­varna­lækn­ir og Páll Þór­halls­son, verk­efna­stjóri í for­sæt­is­ráðuneyt­inu, á fundi dagsins. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir boðaði það á blaðamannafundi í dag að strax í upphafi ágúst mættu 1.000 manns koma saman. Þá verður afgreiðslutími á veitingahúsum og skemmtistöðum lengdur á sama tíma.

Sem stendur mega aðeins 500 koma saman en til stóð að rýmka takmarkið í 2.000 í lok júlí, en innanlandssmit settu strik í reikninginn. Í kjölfarið hafði Þórólfur boðað að ekki yrði slakað til í þessu efni fyrr en í lok ágúst en í ljósi þess að ekki hefur greinst innanlandssmit í tvær vikur telur hann öruggt að flýta þessum tilslökunum þar til rétt eftir verslunarmannahelgi.

Frá því að veitingahús og barir máttu opna í maí hefur aðeins verið opið til 23 á kvöldin og rekstraraðilar lengi beðið eftir því að fá að lengja opnunina. Nú stefnir í að það verði hægt, þó að Þórólfur hafi ekki gefið upp um hve lengi verði leyfilegt að vera opið. Áður hefur hann nefnt annaðhvort miðnætti eða 1 um nótt.

Sóttvarnalæknir áréttaði þá í máli sínu að þetta væri allt saman háð því að þróunin yrði áfram jákvæð og að tilfellum færi ekki aftur að fjölga hér á landi.

mbl.is