„Versta tilfinning í lífi mínu“

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir smitaðist af kórónuveirunni skömmu áður en …
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir smitaðist af kórónuveirunni skömmu áður en hún fór heim frá Bandaríkjunum, svo skömmu raunar, að sýkingin fór framhjá sýnatökupinnanum á flugvellinum. mbl.is/Árni Sæberg

Fimmtudagurinn 25. júní var örlagadagur í lífi Andreu Ránar Snæfeld Hauksdóttur knattspyrnukonu. Um miðjan dag fékk hún símtal frá hjúkrunarfræðingi sem upplýsti hana um að sýni úr henni hefði greinst jákvætt fyrir kórónuveirunni. Andrea, sem hafði dagana á undan spilað tvo leiki fyrir Breiðablik í Pepsi Max-deild kvenna, sá undir eins að smitið ætti eftir að draga dilk á eftir sér.

Í hönd fóru erfiðir dagar og vikur, þar sem fjallað var um veikindi hennar opinberlega og sjálfsásakanir tóku völdin. Í samtali við mbl.is segist Andrea hafa brotnað niður þegar henni var fyrst tjáð að hún væri smituð:

„Það var bara eins og heimurinn hefði stoppað. Ég náði ekki andanum og vissi um leið hvað hafði gerst. Næstu tímar fóru í að tala við smitrakningarteymið sem hringdi viðstöðulaust í mig og vann frábært starf. Ég hringdi sjálf í mína nánustu en síðan hringir kona frá smitrakningarteyminu og spyr hvort ég sé búin að láta þjálfarann minn vita.

Þá vissi ég í hvað stefndi, að ég væri að fara að senda tvö lið í sóttkví og ég vissi hvaða áhrif þetta væri að fara að hafa á deildina. Ég fæ stjúppabba minn til að hringja í þjálfarann áður en smitrakningarteymið gerir það og sit sjálf gersamlega niðurbrotin á gólfinu í herberginu mínu. Þetta var versta tilfinning í lífi mínu að valda þessu,“ lýsir Andrea.

„Ég hélt að ég hefði brotnað niður fyrst“

Ef þetta var það versta, þá var það alversta handan við hornið.

„Ég sit þarna á gólfinu og reyni að eiga samskipti við mömmu í gegnum hurðina, því hún má væntanlega ekki koma nálægt mér, þannig að ég vissi ekki hvert ég átti að snúa mér eða segja eða gera. Svo gerist það mjög stuttu síðar að ég fæ skilaboð á Facebook frá mjög góðri vinkonu minni. Ég stend upp og skoða símann og les: „Heyrðu, ert þú með COVID?“ Meðfylgjandi var skjáskot af frétt með mynd af mér og nafninu mínu: Íslandsmótið í uppnámi? Leikmaður Breiðabliks greind með COVID-19.

Ég hélt að ég hefði brotnað niður fyrst en þessu get ég ekki einu sinni lýst. Þetta var ólýsanleg tilfinning, sem ég myndi aldrei vilja að neinn gengi í gegnum, ekki einu sinni minn versti óvinur. Ég þurfti ekki einu sinni að kalla á mömmu, ég bara veinaði,“ segir Andrea. Meðan á þessu gekk stóð móðir Andreu hjá en gat lítið huggað dóttur sína, enda faðmlag brot á sóttvarnalögum á stundu sem þessari.

Frétt fotbolta.net birtist kl. 17.21 25. júní, 18 mínútum áður en Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lét vita af smitinu, og birtu almannavarnir þó ekkert nafn. Andrea segir fjölmiðilinn hafa varpað fyrir róða öllum hefðbundnum viðmiðum í fjölmiðlum um nöfn og myndbirtingar í tengslum við veikindi fólks, og um leið hafa bakað henni ómældar þjáningar með framferði sínu. Þá hafi fréttaflutningurinn rutt brautina fyrir nafnbirtingu í öðrum miðlum.

Mjög óheppin

Andrea kom til landsins miðvikudaginn 17. júní, tveimur dögum eftir að nýjar reglur gengu í gildi 15. júní um að losna mætti við tveggja vikna sóttkví við heimkomu með sýnatöku á Keflavíkurflugvelli. Það gerði hún, greindist veirulaus, og átti í kjölfarið fjölbreytta viku á Íslandi, nýkomin heim úr fjögurra ára námi við háskóla í Tampa í Flórída. Það var ekki fyrr en boð bárust frá Bandaríkjunum frá smitaðri vinkonu hennar og herbergisfélaga, sem það hvarflaði að nokkrum manni að ástæða væri til að Andrea færi í aðra skimun. Það gerði hún strax að eigin frumkvæði miðvikudaginn 24. júní og fékk niðurstöðuna 25. júní.

Andrea útskrifaðist viðskiptafræðingur cum laude úr University of South Florida …
Andrea útskrifaðist viðskiptafræðingur cum laude úr University of South Florida í vor, þar sem hún hafði verið við nám í fjögur ár, og spilað með háskólaliðinu. Ljósmynd/Aðsend

Segja má að Andrea hafi verið fyrsta birtingarmynd og þar með fórnarlamb þeirrar áhættu sem bjó í nýju kerfi við landamærin. Sem slík er Andrea mjög óheppin. PCR-prófin greina ekki öll virk smit og síst þau sem nýlega hafa búið um sig í líkamanum. Þau gerðu það ekki í tilfelli Andreu en meðvitund um þessa glufu var fjarri því eins mikil í upphafi nýs fyrirkomulags og hún er nú, eftir að tilfelli eins og Andreu og annars Íslendings sem kom frá Albaníu hafa komist í hámæli í fjölmiðlum.

Andrea var því grunlaus um að hún væri sjálf smituð allt frá því að hún fékk neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku á fimmtudegi og þar til hún fékk símtal frá Bandaríkjum á þriðjudagskvöld: „Mér datt það bara ekki í hug. Ég treysti því að neikvætt væri neikvætt. Þetta er bara eins og grænt ljós. Þú ferð áfram á grænu ljósi,“ segir Andrea, sem var að auki með öllu einkennalaus og hafði fulla burði til þess að spila þá tvo knattspyrnuleiki sem hún spilaði, svo og til þess að mæta í tvær útskriftarveislur hjá vinum sínum á laugardeginum.

Um leið og símtalið barst hringdi hún á læknavaktina og ákvað að fara í skimun daginn eftir. Þó að hún greindist jákvæð, varð Andrea aldrei veik vegna veirunnar. Hún fann aldrei fyrir neinu.

Nafnbirtingin áfall

Ekki nóg með að Andrea sé nógu óheppin til að vera fyrsti Íslendingurinn til að sleppa í gegnum nálarauga landamæraskimunarinnar, heldur var nafn hennar umsvifalaust gert opinbert. Hennar, sem hafði fylgt öllum tilmælum frá A til Ö. Um leið var áhuginn á fréttunum einstaklega mikill enda var um fyrstu smit á milli Íslendinga svo mánuðum skipti að ræða.

„Þetta var áfall. Ég þóttist vita hvað ég væri búin að gera en þarna vissi ég að þetta yrði ekki aðeins vitað í fótboltaheiminum, þar sem fólk gat lagt tvo og tvo saman. Þarna var þetta komið fyrir framan alla alþjóð og til fólks sem ég hafði ekki einu sinni talað við, þannig að jafnvel fólk sem þykir vænt um mig var að frétta þetta svona. Þetta hefði getað orðið miklu minna ef þetta hefði bara verið áfram innan fótboltaheimsins,“ segir Andrea. Flestir liðsfélagar hennar fréttu þannig af veikindum hennar í gegnum fjölmiðla.

Um leið og fréttin hafi verið birt segist Andrea hafa fattað að nafnið hennar yrði birt í öðrum miðlum, sem var og gert, meðal annars á mbl.is og í Morgunblaðinu. „Ég var þegar farin að kenna mér um þetta og ég vissi hvað ég hafði gert. Ég vissi síðan strax að þetta væri að fara að birtast alls staðar þegar þetta birtist þarna og það er eitthvað sem ég hafði ekki hugmynd um fyrir fram. Ég er búin að læra núna að þetta var ekki mér að kenna, en ég vissi það ekki fyrst, og að nafnið hafi verið birt var eins og öllum puttum væri beint að mér,“ segir Andrea.

„Eins og verið væri að ráðast á mig sem persónu“

Andrea segir að það hafi verið ákveðið ferli að læra að hætta sjálfsásökununum. „Ég gat ekki sagt mér sjálf að þetta væri ekki mér að kenna, þannig að það hjálpaði smám saman að fá öll þessi fallegu skilaboð frá fólki. Þetta voru oft einstaklingar sem ég þekki ekki og hafa enga tengingu við mig en sendu mér samt hlýjar kveðjur til að láta mér líða betur. Ég fékk í rauninni stuðning frá ótrúlegasta fólki, eins og þegar Alma landlæknir hringdi. Hún ítrekaði að þetta væri ekki mér að kenna og það hjálpaði, því ég hugsaði: Ég hlýt að geta treyst henni. Það er í eðli fólks að reyna að finna einhvern til að skella skuldinni á en síðan fór fólk að beina sjónum sínum að stjórnvöldum og þeirra kerfi, þannig að þetta skánaði,“ segir Andrea. „En fólk þarf að vera ábyrgt, vakandi og virða þær reglur sem heilbrigðisyfirvöld setja. Þetta var þörf áminning um að við þurfum stöðugt að vera á varðbergi.“

Andrea kveðst óendanlega þakklát fyrir allt í senn stuðninginn frá fólki í samfélaginu, Breiðabliki og KSÍ. Um leið og þetta hófst fór KSÍ að sögn Andreu á stúfana og kom því til leiðar að látið yrði af því að birta nafn hennar í fjölmiðlum. Ástandið batnaði þegar farið var að ræða um „knattspyrnukonu í Breiðablik“ í staðinn.

Mynd frá 2018. Andrea er uppalinn Bliki og hefur spilað …
Mynd frá 2018. Andrea er uppalinn Bliki og hefur spilað með meistaraflokksliðinu frá unglingsaldri, nánar tiltekið 2011. Þá hefur hún spilað 10 leiki með landsliðinu. mbl.is/Golli

Eftir að smitið kom upp var strax farið að flytja fréttir af gruni um kórónuveirusmit í liði Selfoss, en Andrea hafði spilað á móti þeim á fimmtudeginum. „Því var slegið strax upp að Selfossstelpa gæti verið með COVID, en hún var það alls ekki. Hún var bara veik. Þarna fannst mér eins og væri verið að segja við mig: „Hvað ertu búin að gera? Þessi stelpa er orðin veik.“ Og þarna fannst mér eins og verið væri að ráðast á mig sem persónu, í stað þess að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatökunni,“ segir Andrea.

Smitaði bara þrjá

Í fjölmiðlum hefur verið rætt um mögulegt hópsmit, hópsýkingu og aðra bylgju faraldursins. Sjálfur Kári Stefánsson sagði Andreu hafa borið í sér sérstaklega mikið magn af veirunni. Raunin er sú að hún smitaði aðeins þrjá einstaklinga. Tvo í einni og sömu útskriftarveislu í Kópavogi á laugardeginum og síðan frænku sína, sem vinnur í atvinnuvegaráðuneytinu.

Utan þessara einstaklinga smitaði Andrea engan, ekki einu sinni nánustu fjölskyldu eða vini. Einstaklingarnir tveir sem hún smitaði í útskriftarveislunni eiga það síðan sameiginlegt að hafa engin samskipti átt við Andreu, heldur aðeins gengið fram hjá henni eins og einu sinni. Þar hefur líklega verið um yfirborðssmit að ræða.

Þrátt fyrir þetta er Andrea Íslandsmeistari í sóttkvíarráðstöfunum, því rakningarteymið sendi 3-400 manns í sóttkví vegna smitsins. Fyrra met var um 200. Aðeins örlítill hluti þessa hóps reyndist eins og ofan greinir smitaður, en viðbúnaður var mikill enda voru þetta fyrstu smit á milli Íslendinga frá því rúmum mánuði áður. Sóttkvíum sem knattspyrnuliðin voru send er flestum lokið og deildin farin aftur af stað með örlítilli seinkun.

Á heiðurinn að nýju kerfi

Katastrófunni var sem sagt afstýrt og má telja mildi að Andrea hafi fengið sendingu frá Bandaríkjunum, sem hefði alveg eins ekki getað komið. Það sem þessi atburðarás kom vissulega til leiðar var að sóttvarnayfirvöld endurskoðuðu það fyrirkomulag að gefa Íslendingum lausan tauminn eftir eina skimun og komu á fót svonefndri heimkomusmitgát sem viðhöfð skal í 4-5 daga eftir fyrstu skimun og fram að skimun tvö.

Andrea smitaði aðeins þrjá af kórónuveirunni, þar af engan úr …
Andrea smitaði aðeins þrjá af kórónuveirunni, þar af engan úr sinni nánustu fjölskyldu. mbl.is/Árni Sæberg

Andrea getur ekki annað en eignað sér heiðurinn að því að hluta og um leið fagnað ráðstöfuninni, því ljóst er að hún hefði sloppið með skrekkinn hefði svona fyrirkomulag verið við lýði þegar hún kom heim. „Ég fæ reglulega símtal frá vinkonu minni í Danmörku sem er á leið heim til að hitta mig,“ segir Andrea. „Takk fyrir að taka af mér helminginn af fríinu mínu,“ hefur hún eftir vinkonu sinni glettin. Sextán daga einangrun Andreu lauk síðasta mánudag og hún flaug með liðinu til Vestmannaeyja á þriðjudag og kom inn á í sigurleik Breiðabliks gegn ÍBV, sem fór vel að merkja 4:0. Fram undan er fótboltasumar hjá Andreu. Íþróttin er ástríðan í lífi hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina