„Þeir eru sjálfir að skjóta sig í fótinn“

Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við mbl.is, að ákvörðunin um að mælast til sniðgöngu á hlutafjárútboði Icelandair sé ekki bein afleiðing útspils Icelandair gegn Flugfreyjufélagi Íslands, en að það hafi verið dropinn sem fyllti mælinn.

„Við erum búin að vera að skoða framgöngu fyrirtækisins gagnvart okkar starfsfólki, sem er fyrir neðan allar hellur að okkar mati,“ segir Ragnar.

Í dag sendi stjórn VR frá sér yfirlýsingu þar sem tilmælum var beint til þeirra stjórnarmanna sem VR skipar í Lífeyrissjóð verslunarmanna að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjáruppboði Icelandair.

Að sögn Ragnars getur VR ekki sætt sig við framgöngu Icelandair gangvart félagsmönnum, sem Ragnar telur stríða gegn siðareglum sem lífeyrissjóðirnir hafa sett sér. Þar á meðal sakar Ragnar fyrirtækið um að úthýsa þjónustu og störfum til svæða þar sem félagsleg staða og réttindi eru fótum troðin.

Vilja að félaginu sé bjargað

„Mér finnst ótrúlegt að stærsti hluthafi félagsins, sem eru lífeyrissjóðir, og til dæmis okkar lífeyrissjóður, séu ekki búin að gera kröfu eða boða til hlutahafafundar til að ræða þessa stöðu og framgöngu stjórnar félagsins í málinu. Sérstaklega í ljósi þess að þeir eru nánast búnir að mála sig út í horn.“

Það sé áhyggjuefni ef fyrirtæki geti sniðgengið leikreglur sem hafa viðgengist í vinnumarkaði hingað til, meðal annars með því að stofna eigin stéttarfélög eða eiga aðeins við stéttarfélög sem fara í einu og öllu eftir stefnum og áherslum fyrirtækjanna. „Þá eru allir undir,“ segir Ragnar

Ragnar segir að VR vilji að félaginu verði bjargað, en að það séu margir þættir sem hafa haft neikvæð áhrif á stöðu félagsins síðustu ár. „Þeir eru sjálfir að skjóta sig í fótinn,“ bætir hann við.

mbl.is