Gamla Herjólfi siglt aftur í næsta verkfalli

Gamli Herjólfur á siglingu í verkfallinu 15. júlí.
Gamli Herjólfur á siglingu í verkfallinu 15. júlí. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Gamla Herjólfi verður aftur siglt á milli lands og Eyja í verkfalli félagsmanna Sjómannafélags Íslands um borð í nýja Herjólfi. Það hefst á þriðjudaginn og stendur í þrjá sólarhringa. Farnar verða fjórar ferðir á dag fram og til baka alla dagana.

Samninganefndir félagsins og bæjarútgerðar Vestmannaeyja hafa ekki getað komist að samkomulagi um samning fyrir skipverjanna. Þegar er í gildi samningur við þá skipverja um borð í ferjunni sem eru í Sjómannafélaginu Jötni.

Síðasta verkfall varði tvo sólarhringa, frá 14. til 15. júlí. Til þess að tryggja samgöngur um þjóðveginn, eins og Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs orðaði það í samtali við Morgunblaðið 15. júlí, var gömlu ferjunni siglt á meðan skipverjar á hinni nýju voru í verkfalli.

Það var umdeilt og Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands, sagði athæfið verkfalls- og lögbrot, en stjórn Herjólfs vísaði því á bug.

Jónas og Sjómannafélag Íslands hafa að sögn Guðbjarts ekki viljað hvika frá kröfum sínum, sem hann segir þó óraunhæfar. „Þetta er algerlega óaðgengilegt. Þetta eru 200 milljónir plús og þetta veit Jónas. Hann er ekkert að fjalla um þetta, enda hefur hann ekkert áhuga á því,“ sagði Guðbjartur.

Ekki þjónusta í kaffiteríunni

Í tilkynningu frá Herjólfi ohf. er greint frá þeirri fyrirætlan að sigla gömlu ferjunni í yfirvofandi verkfalli. 

„Framkvæmdastjórn Herjólfs ohf. telur að tryggja þurfi með óyggjandi hætti öruggar samgöngur milli Vestmannaeyja og lands enda er þetta eina samgöngukerfið sem tryggir aðgengi íbúa og lögaðila að nauðsynlegri þjónustu. Greiðar og öruggar samgöngur eru forsenda lífsgæða sem allir landsmenn gera kröfur til. Undirmenn í áhöfn ferjunnar koma úr röðum annarra stéttafélaga en Sjómannafélagi Íslands. Í þessum ferðum er ekki boðið upp á þjónustu í kaffiteríu ferjunnar og biðjumst við velvirðingar á því,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert