Gjörólík sýn á lögmæti uppsagna

Mismunandi skoðanir eru um lögmæti uppsagna Icelandair fyrir helgi, sem …
Mismunandi skoðanir eru um lögmæti uppsagna Icelandair fyrir helgi, sem voru svo dregnar til baka á sunnudaginn.

Deilt er um lögmæti þeirra uppsagna sem Icelandair Group réðst í á föstudag en félagið dró þær til baka um helgina í kjölfar undirritunar kjarasamnings á milli Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands. Ljóst er að lögmæti uppsagnanna horfir ólíkt við þeim lögfræðingum sem Morgunblaðið hefur rætt við, og þá sér í lagi hvað varðar fjórðu grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar segir: „Atvinnurekendum [...] er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með: a. uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn“.

Að sögn Ragnars Árnasonar, forstöðumanns vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, er langsótt að tengja aðgerðir Icelandair við umrædda grein. „Það var mat manna að ekki væri hægt að reka þessa starfsemi undir þessum kjarasamningi eins og hann var. Þetta er rekstrarákvörðun sem snýr ekkert að stéttarfélagsaðild þessara einstaklinga,“ segir Ragnar og bætir því við að umrædd löggjöf sé frá árinu 1938 og hafi verið samin í frumbernsku stéttarfélaga þegar afstaða atvinnurekenda til stéttarfélaga var allt önnur. „Þetta er ekki sambærilegt,“ segir Ragnar.

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA
Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA

Á hinn bóginn segir Magnús Norðdahl, deildarstjóri lögfræðideildar Alþýðusambands Íslands, alveg ljóst að fjórða greinin hafi verið brotin. „Tilgangurinn var sá að hafa áhrif á afstöðu starfsmanna félagsins sem stóðu í kjaradeilu. Að hafa áhrif á stéttarfélagið í gegnum uppsagnir. Það var alveg ljóst og tilgangurinn hjá þeim,“ segir Magnús enn fremur. Hann bætir því við að skilaboðin frá forráðamönnum Icelandair hafi verið þau að ekki væri hægt að semja við Flugfreyjufélagið og því hafi starfsmönnum þess verið sagt upp og að samið yrði við annað stéttarfélag. „Þetta gæti vart verið augljósara,“ segir Magnús. Ekki náðist í Flugfreyjufélagið við vinnslu fréttarinnar um hugsanlegar fyrirætlanir þess að láta reyna á málið fyrir félagsdómi.

Magnús M. Norðdahl, deildarstjóri lögfræðideildar ASÍ.
Magnús M. Norðdahl, deildarstjóri lögfræðideildar ASÍ. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert