„Skein í gegn að fólk er í sárum“

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins.
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins. mbl.is/Alexander

Húsfyllir var í veislusal Hótel Nordica á Suðurlandsbraut nú í hádeginu þegar stjórn Flugfreyjufélagsins kynnti nýjan kjarasamning fyrir félagsmönnum. Samningurinn er áþekkur þeim sem undirritaður var í síðasta mánuði, en flugfreyjur felldu síðan með 72,65% greiddra atkvæða í atkvæðagreiðslu.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, segir að mikil samheldni hafi verið hjá félagsmönnum á fundinum. „Þetta var ekki átakafundur, en hins vegar skein í gegn að fólk er í sárum eftir atburði síðustu daga.“

„Við fengum yfir okkur þann raunveruleika að gengið yrði framhjá okkur, öllum starfsmönnum sagt upp og búið yrði til nýtt stéttarfélag til að lækka laun okkar til frambúðar,“ segir Guðlaug spurð hvernig hún hafi reynt að höfða til þeirra félagsmanna sem felldu síðasta samning, um að samþykkja þennan.

Hún vill þó aðspurð ekki taka undir að útspil Icelandair um að segja upp öllum flugfreyjum félagsins á föstudag og boða kjaraviðræður við „annað stéttarfélag“ hafi verið hótun sem gekk upp. „Nei, ég myndi ekki segja það. Auðvitað var okkur brugðið, en Flugfreyjufélagið hafði frumkvæði að því að funda á ný og stoppa þessa vegferð,“ segir hún.

Þeir félagsmenn sem mbl.is ræddi við á staðnum voru frekar á því að samningurinn yrði samþykktur en felldur, en þó mátti greina mikla óvissu með framtíðina. Gremja í garð stjórnenda Icelandair var kannski það helsta sem sameinaði viðstadda.

Fara með málið lengra ef þörf er á

Þung orð voru látin falla í kjölfar ákvörðunar Icelandair um að slíta viðræðum og segja upp öllum flugfreyjum. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sakaði Icelandair til að mynda um að að sniðganga leikreglur vinnumarkaðarins og Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði uppsagnirnar grimmilega aðför að flugfreyjum. Þá sagði Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ, að uppsagnirnar væru brot á 4. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Hafði því meðal annars verið velt fram hvort flugfreyjur myndu skjóta málinu til félagsdóms.

Spurð hvort Flugfreyjufélagið muni beita sér í málinu eða láta það ótalið úr því samið hefur verið, segir Guðlaug að áhersla fyrirtækisins sé nú öll á að kynna samninginn og koma honum í atkvæðagreiðslu. „Það er nokkuð ljóst eftir svona stóran samning að þá þarf að horfa á mál út frá öllum sjónarhornum. Við munum kryfja þetta mál og fara með það lengra ef við teljum að þörf sé á.“ segir Guðlaug. Þá segir hún aðspurð að málið falli ekki sjálfkrafa niður þótt flugfreyjur samþykki samninginn.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina