Tóku skrefið sem þurfti að taka

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf.
Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

„Við réðum ekkert alveg við þessar kröfur sem voru lagðar fram í upphafi, en síðan hafa menn verið í samtölum um helgina og þetta var niðurstaðan, að Sjómannafélagið aflýsti verkfalli og við hefjum þá viðræður á grundvelli þeirra atriða sem voru tiltekin og erum bjartsýn á að við náum að ljúka þeim fyrir 17. ágúst,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf.

Sjómannafélag Íslands ákvað í kjölfar fundar samninganefnda beggja aðila að aflýsa vinnustöðvun undirmanna á Herjólfi sem hefjast átti á miðnætti, eftir að samkomulag náðist um viðræðuáætlun.

Öxluðu ábyrgð

Guðbjartur fagnar því að þessari þriðju vinnustöðvun hafi verið aflýst. „Það er vissulega þannig að það hvílir á öllum aðilum mikil ábyrgð og þetta er búið að vera mjög erfitt. Þetta er þjóðvegur og það gera sér allir grein fyrir því að þetta er, það er erfitt að stoppa hérna siglingar, sérstaklega á þessum tíma. Alvarleiki málsins var mikill og ábyrgðin mikil og menn öxluðu hana og tóku skrefið sem þurfti að taka.“

Guðbjartur segir umræðurnar í dag hafi verið mjög góðar og að ákveðið hafi verið að leyfa Verslunarmannahelginni að líða áður en formlegar viðræður hefjist að nýju.

„Við settum þessa dagsetningu inn, 17. ágúst, til þess að hafa andrými til þess að fara yfir ákveðna þætt, sem snúa þá að innihaldi lífskjarasamningsins og útfærslur á honum svo það sé alveg ljóst hvað er verið að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert