„Umræðan var á hærra plani“

Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður og sérfræðingur í vinnurétti.
Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður og sérfræðingur í vinnurétti. Mynd/Af vef ll3.is

„Umræðan gat oft verið svolítið rætin og andstyggileg en það sem mér finnst vera nýtt í þessu er þetta afturhvarf til fortíðar — umræðan er eins og hún var á fjórða áratug síðustu aldar,“ segir Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, um orðræðuna í tengslum við kjaradeilur, í samtali við mbl.is. 

Sem dæmi um orðræðuna má nefna þau stóru og þungu orð sem voru látin falla á föstudaginn eftir að Icelandair tilkynnti að félagið hefði sagt upp öllum flugliðum og að flugmenn myndu sinna starfi öryggisliða um borð tímabundið. Forystufólk í verkalýðshreyfingunni mótmælti aðgerðinni harkalega.

„Þá leyfðum við okkur ekki svona orðræðu“

Fjölmiðlar leituðu meðal annars til Láru til að fá mat á lögmæti aðgerðar Icelandair og sagði hún meðal annars í samtali við mbl.is að hún sæi ekkert brot felast í henni frá lögfræðilegu sjónarmiði að segja upp starfsfólki. Alþýðusamband Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið þar sem lögskýringar Láru voru sagðar rangar og fjarstæðukenndar.  

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði svo meðal annars í facebookfærslu að Lára talaði „úr hliðarveruleika hinna auðugu“ og að um „ömurlegt þvaður í ruglaðri manneskju“ væri að ræða.  

Lára sagðist ekki hafa séð þau ummæli og lét sér fátt um finnast um þau, þau dæmdu sig sjálf, en sagði að orðræðan á kringum kjaradeilur vera orðna öðruvísi en þegar hún starfaði hjá ASÍ, fyrst sem lögmaður og svo framkvæmdastjóri, í alls 12 ár. 

„Umræðan var á hærra plani en þetta þegar ég var hjá Alþýðusambandinu. Ég byrjaði árið 1982 og hætti 1994. Allan þann tíma var Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ og þá leyfðum við okkur ekki svona orðræðu,“ bætir hún við. 

Munur á lögfræði og verkalýðspólitík

Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag kom fram að menn hefðu gjörólíka sýn á lögmæti uppsagna á flugliðum hjá Flugfreyjufélagi Íslands sem átti sér stað á föstudaginn, en þær hafa nú verið dregnar til baka.

Í því samhengi er vísað til 4. greinar laga um stéttarfélög og vinnudeilur sem bannar til að mynda afskipti atvinnurekenda af stjórnmálaskoðunum launþega, afskipti af stéttar- og stjórnmálafélögum og vinnudeilum með uppsögnum úr vinnu eða hótunum um slíkt. 

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, sagði það langsótt að tengja aðgerðir Icelandair við umrætt ákvæði. Magnús Norðdahl, deildarstjóri lögfræðideildar Alþýðusambands Íslands, telur aftur á móti að ákvæði 4. greinar hafi verið brotin. 

Lára segir fólk verða átta sig á því að lögfræðin í þessu sé eitt og svo sé verkalýðspólitíkin annað. Það sem hafi komið fram í umfjöllun Morgunblaðsins í dag sé verkalýðspólitík. Á endanum snúist þetta hins vegar um lögfræðina og hana þurfi að túlka út frá frá lögskýringarreglum, meðal annars fordæmum. 

Verklýðshreyfingin leggi sín sjónarmið fram með rökum

„Síðan getur maður haft skoðun á því hvað er sanngjarnt og eðlilegt og hvað er ósanngjarnt og óeðlilegt,“ segir hún. Þá telur hún eðlilegast að aðilar láti af þrasi í fjölmiðlum og opinberlega nú fyrst að aðilar hafa skrifað undir nýjan kjarasamning.  

„Það er allt í lagi að verkalýðshreyfingin rifji upp lögfræðina í þessu og skoði og velti fyrir sér með hvaða hætti það eigi að túlka þetta og komi þá fram og leggi fram sín sjónarmið með betri rökum en þeim að það séu allir vondir við þá og að það sem fellur ekki að þeirra skoðunum sé fjarstæðukennt og rangt. Það er ekki lögfræði,“ bætir Lára við. 

Lögin barns síns tíma en hafa reynst vel

Varðandi lögin sjálf, þ.e. lög um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938, segir hún að lögin hafi reynst vel síðan þau voru sett þó að þau séu kannski orðin barn síns tíma. Þau hafi verið sett undir mikilli pressu þegar mikið gekk á í verkalýðsbaráttunni. Miklar breytingar hafi þó verið gerðar árið 1996 en frumvarpið sem lagt var fram á Alþingi þá hefði fjallað um mun fleiri breytingar en voru samþykktar á endanum. 

„Það voru aðallega breytingar sem lutu að gerð samninga, undirbúningi samninga og breytingar sem áttu að einfalda kjarasamningsgerðina. Ég held að hluti af þeim lagabreytingum hafi verið til mikilla bóta, en það er margt í þessu sem er kannski barn síns tíma," segir hún og bætir við að lokum: 

„Ég vil nú meina að þessi lög hafi reynst mjög vel svona í gegnum tíðina. Þetta var vel unnið mál og er í raun grunnur að því kerfi sem við búum við í dag. Auðvitað má segja að það eins og annað þurfi að endurskoða en það yrði þá að vera faglega unnið.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert