„Eini reksturinn sem er háður takmörkunum“

Skemmtistaðurinn B5 við Bankastræti.
Skemmtistaðurinn B5 við Bankastræti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jónas Óli Jónasson, meðeigandi skemmtistaðarins B5 við Bankastræti, segir það töluverð vonbrigði að leyfilegur afgreiðslutími skemmtistaða verði ekki rýmkaður fyrr en 4. ágúst. Þá segist hann hafa vonast eftir því að skemmtistaðir fengju að hafa opið lengur en til miðnættis. 

Fram kom á upplýsingafundi almannavarna í dag að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi skrifað minnisblað til ráðherra þar sem lagt er til að fjöldatakmarkanir verði rýmkaðar upp í 1.000 manns 4. ágúst. Sömuleiðis lagði hann til að skemmtistaðir og veitingahús fái að hafa opið til miðnættis frá sama tíma. 

Jónas Óli segir það ákveðin vonbrigði að breytingarnar verði ekki fyrr en eftir verslunarmannahelgi. Eins segist hann hafa vonað að afgreiðslutíminn fengi að vera til klukkan 1. 

„Ég skil ekki alveg hver munurinn er á því að það sé troðfullt til miðnættis eða eitt, en okkur munar alveg gífurlega um það. Svo var búið að tala um það að þetta ætti að gerast fyrr og við skiljum ekki af hverju það var ekki gefið út strax hvort þetta ætti að vera til tólf eða eitt, það er búið að vera að hanga svolítið á þessu,“ segir Jónas í samtali við mbl.is. 

„Auðvitað skiljum við að það séu allir að reyna að gera sitt besta, en við viljum að sjálfsögðu líka halda okkur í rekstri,“ segir Jónas. 

„Við erum ein sem erum enn þá í einhverjum takmörkunum, það er allt annað opið og leyfilegt en skemmtistaðir eru eins og staðan er núna eini reksturinn sem er háður takmörkunum frá stjórnvöldum,“ segir Jónas. 

Þá segir Jónas að ekkert samtal hafi átt sér stað á milli rekstraraðila skemmtistaða og stjórnvalda. 

„Það er ekkert samtal sem á sér stað á milli neinna aðila, okkur er eiginlega bara haldið í óvissu. Skemmtanabransinn er svolítið látinn sitja á hakanum og ég veit eiginlega ekki af hverju. Það er búið að opna landamærin, allan annan rekstur, en við sitjum svolítið eftir. Þetta er smá svona eins og ef veitingastaðir gætu bara haft opið frá 2 til 7 á morgnana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert