Fátt um svör um óútskýrðar greiðslur og „snúninga“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóra Lindarvatns ehf., svara spurningum hans um framkvæmdina á Landsímareitnum „af veikum mætti“ og að staðhæfingar Jóhannesar gætu ekki verið „fjarstæðukenndari“.

Ritdeila þeirra félaga hófst með pistli Ragnars um meint „brask og brall“ stjórnenda Icelandair og Samtaka atvinnulífsins og aðkomu þeirra að uppbyggingu á Landsímareitnum svokallaða. Þar útskýrði Ragnar að eigin hvernig 700 milljónum króna var skotið undan.

Jóhannes svaraði þeim pistli Ragnars og sagði allar fullyrðingar hans um blekkingar og vandræði vera úr lausu lofti gripnar. Sagðist hann hingað til ekki hafa séð ástæðu til að svara málflutningi Ragnars vegna þess hve „fjarstæðukenndur hann er“.

„Barnslega einfalt“

Ragnari finnst, eins og áður segir, lítið til svara Jóhannesar koma og útskýrir af hverju í löngum pistli sem birtist á Facebook-síðu hans um hádegisbil í dag.

„Jóhannes Stefánsson framkvæmdastjóri Lindarvatns ehf. svarar af veikum mætti spurningum mínum um framkvæmdina á Landsímareitnum. Hann segir að ég skauti með himintunglunum í skrifum mínum, að framkvæmdin sé að fullu fjármögnuð og séu innan allra áætlana fyrir utan verklok sem hafa dregist úr hófi,“ skrifar Ragnar og heldur áfram:

„Ekkert gæti verið fjarstæðukenndara í svari Jóhannesar. Það er barnslega einfalt að benda á með opinberum gögnum að verkefnið, sem var kynnt fyrir fjárfestum árið 2016, átti að kostaði rúma 6 milljarða og verklok yrðu 2018 hafi ekki staðist nokkra einustu skoðun né síbreytilegar áætlanir um kostnað og verklok.“

Tengsl Icelandair, SA og SUS við Lindarvatnssnúninginn

Ragnar segir að hann hafi skrifað um „Lindarvatnssnúninginn“ á sínum tíma til að vekja athygli á tengslum aðila við Icelandair, Samtök atvinnulífsins og Samband ungra sjálfstæðismanna.

„Og hvernig 685 milljónum af fjármunum almenningshlutafélags var komið undan í tvö eignarhaldsfélög, MB2015 og Fellasmára ehf. sem tengjast að hluta stjórnarformanni Lindarvatns.“

Hann segir Jóhannes víkja sér undan því að svara kjarna málsins „eins og við var að búast enda fátt um svör þegar óútskýrðar greiðslur og „snúningar þeim tengdir“ ganga manna á milli í klíkuhagkerfinu“.

12.008.000.000 krónur áhvílandi

Því næst rifjar Ragnar upp skrif sín um framkvæmdina á Landsímareitnum og líkir samningagerðinni og fyrirkomulaginu við Upphaf fasteignafélag sem var í eigu Kviku og var metið á milljarða þangað til misferli við rekstur þess kom í ljós.

Hann birti upphaflega mynd af veðbandayfirliti Lindarvatns ehf. máli sínu til stuðning en sú mynd hefur verið fjarlægð. Í stað hennar skrifar hann það sem fram kom á myndinni og að fram komi að samtals hvíli 12.008.000.000 krónur á félaginu.

Boðar „uppskrift“ að 850 milljóna króna gróða

Fjarstæðukenndar útskýringar og ásakanir í hans garð rifjuðu að sögn Ragnars upp fyrir honum annað mál sem hann segir í eðli sínu ekki ósvipað – mál sem snýr að Íslenskri orkumiðlun ehf. Hann boðar að hann muni senda frá sér „uppskriftina“ að því hvernig „sjallarnir græða 850 milljónir, og grilla á kvöldin, með því að selja almenningshlutafélag“.

Þar hafi m.a. komið við sögu Magnús Júlíusson, fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, „og fleiri góðir gestir“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert