Of snemmt að hrósa happi yfir bóluefni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir prófanir á nýju bóluefni gegn kórónuveirunni lofa góðu. Hann telur þó að enn sé nokkuð langt í land þangað til hægt sé að bólusetja mikinn fjölda fyrir veirunni. 

Prófanir á bóluefni sem vísindamenn við Oxford-háskóla hafa þróað þykja hafa skilað góðum árangri og efnið sagt þjálfa ónæmiskerfið til að berjast gegn veirunni. 

„Ég held að það sé óhætt að segja að þessar niðurstöður sem hafa verið að birtast lofa mjög góðu. En þetta er bara fyrsti hlutinn af mörgum sem gera það að verkum og eru forsenda þess að hægt sé að markaðssetja svona bóluefni. Ég held að það sé of snemmt að hrósa happi yfir því að við eigum von á einhverju góðu bólefni. Það er óskandi að svo verði en það mun örugglega taka ár eða lengri tíma að markaðssetja gott bóluefni,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Þórólfur sagði að þó að tíðindin frá Oxford séu ánægjuleg og að flestir þeirra sem tekið hafi þátt í rannsókninni hafi þróað mótefni, sé enn margt óljóst. Meðal annars á eftir að koma í ljós hvort að mótefnið sé verndandi, hvort það forði frá veikindum, hversu lengi það endist og hversu öruggt bóluefnið sé. 

Ef bólusetja á hundruð milljónir eða jafnvel milljarða manna þarf að vera fullvissa um það að bóluefnið sé eins öruggt og mögulegt er og til þess að sú fullvissa sé til staðar þarf að prófa efnið á miklu fleirum segir Þórólfur. Þá þarf að skoða hvort að hægt sé að framleiða bóluefnið í massavís, hverjir geti fengið það og svo framvegis. Það er margt sem er eftir en þetta eru vissulega góð tíðindi. 

Þá segir Þórólfur ómögulegt að segja til um það hvort að veiran hverfi með bóluefni eða öðrum aðgerðum. Hann segir að þróun veirunnar eigi eftir að koma í ljós, hvort hún verður vægari eftir því sem fleiri smitast eða ekki. Hann segir klárt mál að bóluefni sem er öruggt og virkar vel væri auðveldasta leiðin til að stöðva veiruna. Reynslan af þróun annarra bóluefna sýnir þó að það taki langan tíma að þróa örugg bóluefni. Þórólfur segist halda að það eigi eftir að taka eitt til tvö ár til viðbótar að þróa bóluefni við kórónuveirunni, en hann vonar þó að hann hafi rangt fyrir sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert