Óviðeigandi og dónalegt

Logi segist ekki þekkja það hvort grundvöllur sé fyrir því …
Logi segist ekki þekkja það hvort grundvöllur sé fyrir því að taka mál sem þetta fyrir í utanríkismálanefnd. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er auðvitað algjörlega óviðeigandi og dónalegt af honum að vera einhvern veginn að gefa það í skyn að við og Bandaríkjamenn fylgjum sömu stefnu í þessu,“ segir Logi Einarsson, formaður og þingmaður Samfylkingarinnar og 2. varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, um tíst sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi þar sem hann talar um sameiginlega baráttu gegn því sem hann kallar Kínavírusinn og setur fána Bandaríkjanna og Ísland við.

„Ég vona að þetta hafi verið klaufaskapur hjá honum, en hann ætti alla vega að hafa rænu á því að fjarlægja íslenska fánann úr þessari færslu,“ segir Logi í samtali við mbl.is.

Logi segist ekki þekkja það hvort grundvöllur sé fyrir því að taka mál sem þetta fyrir í utanríkismálanefnd, en þegar mbl.is leitaði viðbragða frá forsætis- og utanríkisráðuneytinu fengust þær upplýsingar að ekki væri venjan að ráðherrar eða ráðuneyti tjáðu sig um erlenda diplómata.

„Best væri náttúrulega ef blessaður maðurinn myndi senda inn afsökunarbeiðni og útskýra að hann hafi gert þetta í gáleysi. Þetta er mjög óviðeigandi og ég vona að þetta komi ekki fyrir aftur,“ segir Logi að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert