Sendiherra Bandaríkjanna harðlega gagnrýndur

Jeffrey Joss Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, með Guðna Th. …
Jeffrey Joss Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, birti umdeilda færslu á samfélagsmiðlinum Twitter í gær þar sem hann endurtísti skilaboðum frá Donald Trump Bandaríkjaforseta. Það hefur farið öfugt ofan í marga sem eru ósáttir með sendiherrann.

„Við erum sameinuð í baráttunni gegn hinni ósýnilega Kínaveiru,“ skrifar Gunter við færsluna sem hann endurtístir frá Bandaríkjaforseta og setur íslenska fánann við hlið þess bandaríska.

Færslan frá Trump sýnir mynd af honum, með andlitsgrímu. Skilaboðin eru svipuð og þau sem Gunter tísti en forsetinn bætir um betur og skrifar:

„Margir segja að það sé þjóðrækið [e. patriotic] að nota andlitsgrímu þegar möguleikinn á nándartakmörkunum er ekki til staðar. Það er enginn þjóðræknari en ég, uppáhaldsforsetinn ykkar.“

„Rasískt og heimskulegt rugl

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Egill Helgason dagskrárgerðarmaður eru meðal þeirra sem hafa tjáð sig um málið. Ágúst segir skilaboðin „rasískt og heimskulegt rugl“ og óskar eftir því að „þessi sendiherra noti ekki íslenska fánann í þessum tilgangi“.

Egill Helgason segir sendiherrann ekki vera diplómata heldur hafi hann borgað ríkulega í kosningasjóð Trump og að hann ætti að skilja að á Íslandi töluðum við ekki um „Kínavírus“. „Það er líka ansi mikill munur á því hvernig við og Bandaríkjamenn höfum höndlað vírusinn. Hér hafa vísindamenn ráðið ferðinni. Í Bandaríkjunum sæta vísindamenn árásum,“ bendir Egill á.

„Farðu heim“

Þá hafa hátt í 50 manns skrifað athugasemd við færslu Gunter, þar af margir Íslendingar, sem eru við snögga yfirferð flestar neikvæðar. Einn netverji segir Gunter einfaldlega að fara heim til sín.

„Hefur einhver einhvern tímann uppgötvað sýnilega veiru? Nei? Ég hélt ekki,“ skrifar einn. Nokkrir biðja sendiherrann að sleppa því að nota íslenska fánann við hlið þess bandaríska.

„Á Íslandi köllum við kórónuveiruna ekki „Kínaveiruna“, því það er rasískt og heimskulegt. Við köllum hana heldur ekki „ósýnilega“ því hún er það ekki,“ skrifar annar.

mbl.is