Smit með mótefnum ekki lengur talin með

Fólk með óvirkt veirusmit, sem greinist við komuna til landsins, …
Fólk með óvirkt veirusmit, sem greinist við komuna til landsins, hefur hingað til verið haft með í tölum um fjölda nýrra smita á Íslandi. Því hefur nú verið breytt. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Gerð hefur verið breyting á framsetningu tölulegra upplýsinga um kórónuveiruna á heimasíðunni covid.is. Einstaklingar sem greinast með kórónuveiruna við komuna til landsins, en reynast síðar hafa myndað mótefni fyrir veirunni og ekki verið með virk smit, eru ekki lengur taldir með í heildarfjölda smitaðra. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðunni covid.is.

Alls hafa 110 einstaklingar mælst jákvæðir í veiruprófi á landamærum Íslands. Þar af hafa 92 síðar reynst vera með mótefni fyrir veirunni en aðeins 18 með virkt smit.

Hingað til hefur sá háttur verið hafður á að öll smitin, virk eða óvirk, hafa verið skráð sem ný tilvik kórónuveirunnar á Íslandi, þrátt fyrir að umræddir hafi aldrei verið með virkt smit hér á landi. Segir í tilkynningunni að nýja framsetningin sé réttari, en áfram verði hægt að nálgast upplýsingar um fjölda skimana, fjölda jákvæðra prófa og virk og óvirk smit.

Tölurnar hafa nú verið leiðréttar afturvirkt, og segir því nú á covid.is að 1.839 staðfest smit hafi greinst hér á landi frá upphafi, en þau voru áður sögð 1.931.

Lítur betur út erlendis

Ætla má að breytingin sé gerð vegna samanburðar við önnur ríki en vegna þess að gömul, óvirk smit úr erlendum ferðamönnum hafa hingað til verið talin til nýrra smita á Íslandi hefur landið komið verr út en ella úr samanburði við önnur ríki á stöðu faraldursins. Þannig segir á heimasíðu Sóttvarnastofnunar Evrópu að á Íslandi hafi greinst 18,8 ný tilvik veirunnar á hverja 100.000 íbúa síðustu 14 daga, sem skipar Íslandi í flokk með löndum á borð við Bretland (14,1) og Spán (18,0).

Lönd heims nota mörg hver tölur frá Sóttvarnastofnun Evrópu um svokallaða nýgengni, þ.e. fjölda nýrra tilfella síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa, til að ákveða fyrir hvaða ríkjum á að opna landamæri sín. Þannig vakti athygli þegar Lettar gerðu það að skilyrði að Íslendingar þyrftu að fara í 14 daga sóttkví við komuna til landins, en sú regla var sett á ferðamenn frá öllum ríkjum (sem á annað borð mega koma til landsins) þar sem hlutfallið var yfir 16.

Eftir breytinguna er nýgengnihlutfallið 2,45, að því er segir á covid.is. Ekki liggur fyrir hvort þess verður farið á leit að tölum á heimasíðu Sóttvarnastofnunar Evrópu verði breytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert