Um 250 fengið undanþágu frá ferðatakmörkunum

Alls hafa um 250 einstaklingar fengið staðfestingu á því að …
Alls hafa um 250 einstaklingar fengið staðfestingu á því að þeir uppfylli skilyrði fyrir undanþágu frá ferðatakmörkunum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alls hafa um 250 einstaklingar frá ríkjum utan EES og EFTA fengið staðfestingu á því að þeir uppfylli skilyrði fyrir undanþágu frá ferðatakmörkunum við komuna til landsins á þeim grundvelli að það sé vegna starfa sem teljast efnahagslega mikilvæg og störf þeirra geta ekki verið framkvæmd síðar eða erlendis. 

Fram kemur í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is að frá 15. júní hafi ráðuneytið tekið við vel á annað þúsund fyrirspurnum sem flestar varða lokun ytri landamæra. Stór hluti þeirra fyrirspurna varðar fjölskyldur íslenskra ríkisborgara og ríkisborgara EES- og EFTA-ríkjanna, og þeirra sem hfa dvalarleyfi í ríkjum EES eða Schengen. Sumar fyrirspurnanna hafa varðar undanþágu frá tímabundnum ferðatakmörkunum vegna brýnna erindagjörða þeirra sem koma frá ríkjum utan EES og EFTA. 

Utanríkisráðuneytið tekur þó engar ákvarðanir um undanþágur heldur leitar álits Útlendingastofnunar, en landamæralögregla tekur þó lokaákvörðun. Frá því að ferðatakmarkanir tóku gildi hefur utanríkisráðuneytið gefið út á fimmta hundrað bréfa til staðfestingar á því að ferðatakmarkanir eigi ekki við um fjölskyldur ríkisborgara EES- og EFTA-ríkja og þeirra sem hafa dvalarleyfi þar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert