Áhrif innlendra ferðamanna ofmetin

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/RAX

Bílaraðir á þjóðvegum landsins og þéttsetin tjaldsvæði gefa fyrirheit um gott ferðasumar og viðspyrnu í ferðaþjónustu sem liggur í sárum. Samtök ferðaþjónustunnar segja að innlend eftirspurn sé til bóta fyrir marga, en sé einungis plástur á blæðandi svöðusár.

Í vor blasti við algert hrun og fullkomin óvissa í  ferðaþjónustu. Í samtali við mbl.is lýsir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, því að afbókunum hafi rignt yfir, en frá því millilandaflug hófst á ný hafi erlend eftirspurn aukist jafnt og þétt. Fjöldi erlendra ferðamanna sé þó enn ekki svipur hjá sjón og ferðaþjónustu sé að megninu til haldið uppi af innlendri eftirspurn.

Innlend eftirspurn kemur ekki í stað erlendrar 

Hún segir að margir njóti góðs af ferðalögum Íslendinga um eigið land, en að fjöldi þeirra sé aðeins „toppurinn af ísjakanum“. Þar vísar hún til þess að sú umferð komi hvergi nærri í stað þess fjölda erlendra ferðamanna sem hingað sækja í venjulegu árferði. Mörg fyrirtæki sérhæfa sig í því að þjónusta erlenda ferðamenn, s.s. rútufyrirtæki, bílaleigur og hótelin í Reykjavík. Þar sé nýtingin í algeru lágmarki og litlar horfur um breytingar þar á. Einnig bendir Bjarnheiður á að tímabil Íslendinga sé stutt og margir þjónustuaðilar keyri á tilboðum og lágu verði, „það er því spurning hvað kemur upp úr kössunum í haust“.

Vilji og geta til að ferðast

Bjarnheiður segir marga enn hrædda við að ferðast. Sá ótti er bæði vegna veirunnar sjálfrar og mögulegrar smithættu, en einnig vegna röskunar á ferðalagi og persónulegri fjárhagsáhættu því samfara. Á hinn bóginn séu ferðamenn sem gjarnan vilji koma til landsins en sjái sér það ekki fært vegna skorts á flugframboði. Þar nefnir hún sérstaklega Bandaríkjamenn, sem séu einn stærsti viðskiptahópurinn, en flug þangað hefur að mestu legið niðri frá því flugbann var sett.

Kvíði fyrir vetrinum

Margir ferðaþjónustuaðilar eru kvíðnir fyrir vetrinum segir Bjarnheiður. Óvissa um þróun faraldursins og flugsamgangna geri allar spár um eftirspurn marklitlar. Verði ekkert bakslag sé „tilefni til að horfa björtum augum til næstu mánaða“, en aðaltíminn er þó að sumri, þar sem meginhluti tekna verður til en varlegt sé að tala um eiginlega uppsveiflu fyrr en næsta vor ef úr rætist. Hún segir að veiking krónunnar hjálpi til, enda séu erlendir viðskiptavinir mjög næmir fyrir breytingu á gengi, sem komi glöggt fram í kauphegðun.

Óvissa um endurráðningar 

Um úrræði stjórnvalda segist hún trúa því að stuðningslán geti hjálpað mörgum, en bendir á að það auki á skuldasöfnun og ýti vandanum áfram. Hlutabótaleiðin hefur komið að gagni, en mikill fjöldi starfsmanna í ferðaþjónustu vinnur nú á uppsagnarfresti.

Um endurráðningu segir hún það „algerlega skrifað í skýin hvort grundvöllur verði fyrir því“, en mjög ólíklegt sé að allir verði endurráðnir. Svo gæti farið að innlend eftirspurn tæmist á sama tíma og uppsagnarfrestum lýkur. „Þetta gæti orðið dapurlegt um áramótin.“

mbl.is