Klukkutími breytir litlu

Lukkuhjólið fræga á Enska barnum.
Lukkuhjólið fræga á Enska barnum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Þetta er búið að vera mjög sorglegt. Við bjuggumst við því að tíminn yrði lengdur til að minnsta kosti eitt eða tvö,“ segir Arnar Þór Gíslason, einn eigenda Lebowski bars, Kalda bars, Enska barsins, The Irishman Pub og Dönsku kráarinnar.

Samkvæmt breyttum reglum um samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins, sem taka gildi 4. ágúst, mun fjöldatakmörkun samkoma miða við 1.000 manns í stað 500. Þá mega skemmtistaðir og aðrir vín­veit­ingastaðir hafa opið til miðnætt­is í stað 23 eins og verið hef­ur.

„Þessi klukkutími, sem okkur grunar að verði að minnsta kosti út ágúst, gerir rosalega lítið. Þetta eru mjög mikil vonbrigði,“ segir Arnar.

Fá enga aukastyrki

Hann bendir á að barir og krár hafi verið lokuð í tvo og hálfan mánuð vegna kórónuveirunnar í vor en lúti þrátt fyrir það sömu skilyrðum og önnur fyrirtæki sem gátu haft opið á sama tíma.

„Við fáum enga aukastyrki eða neitt aukalega. Svo eigum við að þjást svona,“ segir Arnar og bætir við að hann átti sig ekki á rökunum um aukna hættu á hópsmiti eftir því sem líður á nóttina:

„Hópamyndunin er gríðarleg fyrir klukkan ellefu. Við skiljum ekki að hún verði verri eftir klukkan ellefu eða eftir tólf frá 4. ágúst. Það er allt stappað á veitingastöðum og fínt að gera á börum og krám til klukkan ellefu og við skiljum ekki muninn á 12, 1, 2 eða 3. Ef það er troðið má ekki keyra þetta áfram og þá frekar dreifa álagi og minnka líkur á hópsmiti?“

Arnar segir ljóst að fólk fari ekki beint heim til sín þegar staðir loki klukkan ellefu og bendir í því samhengi á óskipulagðar hópamyndanir í Öskjuhlíð. Einnig séu brúðkaup og stórar veislur í veislusölum í gangi mun lengur en lokunartíminn segir til um.

Hefur sent ráðherrum og sóttvarnalækni tölvupóst

Arnar segist hafa sent Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og ráðherrum tölvupóst en svör séu af skornum skammti. Áður en innanlandssmit kom upp í lok júní segir Arnar að staðið hafi til að lengja afgreiðslutíma en hætt hafi verið við það.

„Það er verið að leyfa alls konar risamót og við gleðjumst yfir því. Við skiljum samt ekki af hverju við erum eina greinin á Íslandi sem fær ekki að sinna því sem hún þarf að gera til að halda lífi.“

Arnar Þór bendir á að staðirnir séu með leyfi til hálffimm að morgni en loki klukkan ellefu. Þar fari fimm og hálfur tími þar sem staðirnir missi miklar tekjur af næturlífinu. Reksturinn hafi verið þungur og verði það áfram og ljóst er að segja þurfi fjölmörgum upp störfum. Enn fremur telur Arnar fullvíst að einhverjir staðir fari á hausinn með þessu áframhaldi.

mbl.is