Jarðskjálftar í Mýrdalsjökli

Mýrdalsjökull.
Mýrdalsjökull. mbl.is/Rax

Jarðskjálfti sem mældist 3,3 að stærð varð klukkan 5:36 í morgun í norðanverðum Mýrdalsjökli. Annar skjálfti af stærð 2,7 varð á svipuðum slóðum kl. tvö í nótt. Nokkrir minni skjálftar hafa einnig mælst þar. Aukning í skjálftavirkni um sumar í Mýrdalsjökli hefur orðið reglulega undanfarin ár samkvæmt upplýsingum frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftahrina hófst við Fagradalsfjall á Reykjanesi 19. júlí um kl. 01:30. Stærsti skjálfti sem mælst hefur í hrinunni, 5 að stærð, var kl. 23:36 19. júlí. Fjölmargir eftirskjálftar hafa mælst í kjölfarið. Tilkynningar hafa borist um að stærstu skjálftarnir hafi fundist víða.

Mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga frá því í lok janúar. Land reis við Þorbjörn og gáfu líkön af kvikuinnskoti til kynna syllu á 3-4 km dýpi sem olli mikilli jarðskjálftavirkni. Kvikuinnskot vestast á Reykjanesskaganum um miðjan febrúar og fram í mars olli einnig fjölda jarðskjálfta.

Á Reykjanesskaganum öllum hafa mælst meira en 20.000 jarðskjálftar frá 20. janúar, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Inni í þeirri tölu eru jarðskjálftar við Krýsuvík en megnið má rekja til jarðskjálftahrina við Grindavík, úti á Reykjanestá og nú hjá Fagradalsfjalli. Framan af síðastliðnum laugardegi mældist fjöldi jarðskjálfta með upptök norðan við Grindavík.

Ótengd þessum hræringum er jarðskjálftahrina sem hófst 19. júní um 20 km norðaustur af Siglufirði. Það er öflugasta hrina sem orðið hefur á Tjörnesbrotabeltinu í meira en 40 ár, að sögn Veðurstofunnar. Í gær höfðu mælst meira en 14.000 skjálftar á Tjörnesbrotabeltinu öllu frá 19. júní. Sumir þeirra teljast ekki til hrinunnar. Jarðskjálftahrinan í mynni Eyjafjarðar heldur áfram en aðeins hefur dregið úr virkninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert