Kosið 25. september 2021

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun leggja til að næstu alþingiskosningar verði haldnar 25. september 2021. Þetta segir hún í samtali við mbl.is.

Yfirstandandi kjörtímabili lýkur 23. október 2021 og ekki hefði þurft að boða til kosninga fyrr en þá. Síðustu vikur hefur Katrín hins vegar átt í viðræðum við forystumenn hinna stjórnmálaflokkanna um dagsetningu kosninga, en fulltrúar stjórnarandstöðunnar höfðu kallað eftir því að kosið yrði að vori 2021. Það væri í samræmi við hefð og gæfi nýrri ríkisstjórn meira svigrúm til að móta fjárlagafrumvarp næsta árs en ef tekið er við valdataumum að hausti. 

Í samtali við mbl.is segir Katrín að tillaga hennar sé því eins konar málamiðlun. „Hér [í september 2021] erum við komin að lokum kjörtímabils, en erum líka að taka tillit til færðar og veðurs,“ segir Katrín. Þá telur hún algjörlega nægjanlegt svigrúm til að vinna fjárlög fyrir ríkisstjórn sem tekur við völdum að loknum kosningunum. 

„Umhverfi fjárlagavinnunnar er alveg breytt,“ segir Katrín og vísar þar væntanlega í lög um opinber fjárlög en samkvæmt þeim byggja fjárlög á fjármálastefnu til nokkurra ára. Katrín segir aðspurð að góð samstaða sé innan ríkisstjórnarinnar um dagsetninguna og segist ekki sjá eftir þessum eina mánuði af kjörtímabilinu. 

Samkvæmt stjórnarskránni er það hlutverk forseta Íslands að stytta kjörtímabil Alþingis, en það er gert að tillögu forsætisráðherra. Því má ætla að dagsetningin 25. september 2021 standi nema eitthvað stórvægilegt komi upp á í millitíðinni.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina