Líklegt að smitin megi rekja til útlanda

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Líklegt er talið að einstaklingarnir tveir, sem greindust með kórónuveiruna eftir að hafa smitast innanlands, hafi sjálfir smitast af einhverjum sem var erlendis. Þetta er mat Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Þrjár vikur eru liðnar frá því innanlandssmit greindist síðast hér á landi.

Þórólfur segir að frekari rannsóknir þurfi á erfðaefni veirunnar til að leiða í ljós hvaðan smitin séu upprunnin, en það gæti tekið nokkra daga. „Við vitum ekki nákvæmlega hvaðan smitið kemur og stundum fáum við aldrei að vita það,“ segir hann.

„Við höfum áður sagt að aðaláhættan hér er ef smit kemur inn í landið. Við höfum greint 20 smit á landamærunum og þótt það sé lítið þá vitum við að einstaklingar geta komið inn smitaðir þótt próf þeirra sé neikvætt í byrjun.“ Landamæraskimun þjóni aðeins því hlutverki að lágarka áhættuna en hún sé þó alltaf til staðar. 

Annar hinna smituðu var á frjálsíþróttamóti síðustu helgi og hefur á þriðja tug þátttakenda og aðstandenda verið settur í sóttkví. Ekki liggur þó fyrir hvort viðkomandi smitaðist fyrir, eftir eða jafnvel á mótinu sjálfu. Hinn smitaði hefur tengsl við útlendinga sem komu til landsins erlendis frá.

Aðspurður segir Þórólfur að smitin tvö setji fyrirhugaðar tilslakanir á samkomubanni ekki í uppnám. „En ef við förum að fá meira smit gætum við þurft að endurskoða það. Þá er öll hópamyndun orðin áhættusöm,“ segir Þórólfur og bætir við að þess vegna biðli almannavarnir til almennings að fara gætilega, passa sig að vera ekki of mikið í kringum aðra og vera stöðugt á varðbergi. 

Hann segir aðspurður að engin ákveðin lína sé um hve mörg smit þurfi til að setja tilslakanir í uppnám. „Það fer allt eftir því hversu mörg koma á sama stað, hversu alvarleg þau eru og fleira.“

mbl.is