Óvíst hvaðan smitið er komið

Frjálsíþróttahöllin í Hafnarfirði.
Frjálsíþróttahöllin í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hópar sem kepptu í tveimur greinum á Unglingameistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum í Kaplakrika í Hafnarfirði um helgina 18.-19. júlí eru komnir í sóttkví eftir að einn keppenda greindist með COVID-19 í gær.

Ásamt öðru innanlandssmiti sem greindist á landinu í gær, er smit umrædds keppanda það fyrsta sem greinist hér á landi frá 2. júlí.

Ekki liggur enn fyrir hvort frjálsíþróttamaðurinn hafi fengið einkenni fyrir, eftir eða um helgina, þannig að um sinn er litið á sóttkvína sem öryggisráðstöfun. Á þriðja tug hefur verið sendur í sóttkví í tengslum við smit keppandans en fleiri en 200 kepptu á mótinu og aðstandendur þeirra mættu þá margir á staðinn.

„Þetta er náttúrulega ekki gott. Við viljum öll að COVID sé búið og farið, en þetta sýnir að við þurfum að lifa með því og þurfum öll að vera áfram á tánum,“ segir Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann ítrekar að ekki er vitað nákvæmlega hvaðan smitið kemur, enda ekki ljóst hvenær keppandinn fór að sýna einkenni. Þeir sem hann var í samskiptum við á mótinu eru þó farnir í sóttkví. Þá er viðkomandi einnig í vinnu og einhverjir samstarfsfélagar munu einnig komnir í sóttkví.

Annað innanlandssmit 

Í tilkynningu frá Almannavörnum er talað um smitið sem innanlandssmit, sem gefur til kynna að keppandinn hafi smitast hér á landi. Smitrakning stendur yfir og er enn ekki lokið og ljóst að þónokkrir eru á leið í sýnatöku.

Til viðbótar við þetta smit greindist annað innanlandssmit á Íslandi í gær, alls ótengt þessu. Þar hafa nokkrir verið settir í sóttkví og sjúklingurinn vitaskuld í einangrun, svo sem og gildir um umræddan frjálsíþróttamann.

Það er engan veginn ljóst að smitið eigi uppruna sinn að rekja til mótsins en verið er að velta við öllum steinum. Næstu helgi er Íslandsmeistaramótið í frjálsum íþróttum haldið á Akureyri og að sögn Freys er það gert í samráði við Almannavarnir, sem meta það þannig að þar sé öruggt að menn haldi sínu striki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert